Tvö hænufet og tvíhöfða þurs

Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi.
Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að því á Alþingi í morgun, hvaða Evrópukúrs hefði verið tekinn í nýrri ríkisstjórn, sem ekki var tekinn í samstarfinu með Sjálfstæðisflokknum.

Vitnaði þingmaðurinn í útvarpsviðtal, þar sem hann sagði að Össur hefði fullyrt að Samfylkingin hefði náð miklu lengra með málefni Evrópusambandsin í samstarfi við Vinstri-græna og væri þar ólíku saman að jafna við Sjálfstæðisflokkinn. Fróðlegt væri að vita í hverju þessi árangur fælist.

Össur svaraði því til að tvö hænufet hefðu verið stigin í átt til Evrópusambandsins í hinu nýja samstarfi, sem ekki hafi verið hægt að stíga með Sjálfstæðisflokknum. Annars vegar að breyta eigi stjórnarskrá með þeim hætti að auðlindir verði þar gerðar að sameign þjóðarinnar. „Það er forsenda þess að hægt sé að ganga í Evrópusambandið með fullri reisn,“ sagði Össur.

Í öðru lagi sé það lagt til að breytingarferli stjórnarskrár verði breytt. Nánar til tekið með þeim hætti að Alþingi greiði atkvæði um stjórnarskrárbreytingu, þá sé boðað til kosninga og að um leið fari stjórnarskrárbreytingin í þjóðaratkvæði..

Sagði Össur að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert getað gert í Evrópumálum nema að búa til „tvíhöfða þurs“, eins og hann kallaði Evrópunefnd flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki stjórntækur flokkur vegna innri misklíða í Evrópumálum. Vitnaði hann í Björn Bjarnason, þingmann og fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, sem hafi í tvígang sagt hættu á því að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna afstöðunnar til ESB.

Guðlaugur Þór sagði hins vegar eftir svar ráðherrans að greinilegt væri að mikill taugatitringur væri í þingmönnum Samfylkingarinnar þegar Evrópumálin bæri á góma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert