Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í athugasemdum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á seðlabankalögum, að í öðrum löndum séu venjulega einn eða tveir aðstoðarseðlabankastjórar auk aðalbankastjórans.
Þá segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að yfirleitt sé ekki kveðið á í lögum um slík embætti hvaða menntun seðlabankastjóri eigi að hafa heldur gerð krafa um viðurkennda þekkingu og reynslu.
Í frumvarpinu, sem nú er í meðförum Alþingis, er aðeins gert ráð fyrir einum seðlabankastjóra, sem ráðinn er til sjö ára í senn að undangenginni auglýsingu. Skal seðlabankastjóri hafa lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur fram, að umsögnin um frumvarpið sé til bráðabirgða þar sem starfsmenn sjóðsins hafi ekki haft tækifæri til að ræða um það við íslensk stjórnvöld.
Ákvæði er í frumvarpinu um fimm manna peningastefnunefnd, sem skipuð er seðlabankastjóra, tveimur yfirmönnum bankans og tveimur mönnum sem seðlabankastjóri skipar til þriggja ára í senn.
Um það segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að venjan sé, þar sem slíkar nefndir eru, að skipunartími nefndarmanna sé venjulega ekki styttri en skipunartími þess einstaklings eða stjórnvalds sem skipar þá. Ella kunni svigrúm þeirra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, að skerðast.
Um er að ræða umsögn, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, óskaði eftir frá sjóðnum. Er skjalið dagsett í dag. Fyrir rúmri viku sendi sjóðurinn forsætisráðuneytinu athugasemdir við frumvarpið en þær voru trúnaðarmál og sagðar tæknilegar.