Að færa niður höfuðstól verðtryggra íbúðalána í íslenskum krónum er tiltölulega einföld aðgerð. Flóknara er að grípa til aðgerða hvað varðar íbúðarlán í erlendri mynt. Þetta segir Benedikt Sigurðarson framkvæmdarstjóri Húsnæðissamvinnufélagsins Búseta á Norðurlandi.
Búseti hefur ásamt Félagi Fasteignasala, Hagsmunasamtökum heimilanna, Húseigendafélaginu og talsmanni neytenda sent frá sér ákall til ríkisstjórnarinnar um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna, til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot þeirra. Á næstunni þurfi að koma til veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna gengishruns íslensku krónunnar. Þá þurfi á næstu vikum að leggja drög að nýrri löggjöf um íbúðarveðlán þar sem gætt yrði jafnræðis milli lántakenda og fjármagnseigenda í stað núverandi kerfis þar sem áhætta af þróun gengis og óvissa um markaðsverð sé lögð að fullu á lántakendur.
Benedikt segir tiltölulega einfalt mál að færa niður höfuðstól íbúðalána í íslenskum krónum. „Menn myndu miða við vísitöluna á einhverjum tilteknum degi," segir hann. „Við höfum horft til síðasta árs og ég hef sagt að eðlilegt sé að miða við tímabilið frá 1. mars 2008, sem var fyrir hið raunverulega hrun og til febrúar í ár. Menn myndu þá endurreikna höfuðstólinn miðað við þá vísitölufrystingu og öll kerfi bankanna ráða mjög vel við slíka endurreikninga. Með því erum við að tala um niðurfærslu um u.þ.b. 20%."
Hvað varðar erlendu lánin segir Benedikt að þau séu miklu flóknari, ekki síst vegna stöðunnar sem nú er í uppgjörinu milli gömlu og nýju bankanna. „Mínir bankamenn hafa bent á þá leið að meðhöndla þau fyrst og fremst með frystingu tímabundið og skilgreina afborgun sem einungis afborgun af hluta höfuðstólsins. Það sem umfram væri myndi þá bætast við höfuðstólinn og gert upp milli gömlu og nýju bankanna þegar það væri raunsætt." Þannig yrði í raun lækkuð afborgunarbyrðin af erlendu lánunum, fremur en höfuðstóll þeirra.
Benedikt segir að með þessu sé verið að kalla eftir almennri aðgerð, sem leiddi til þess að viðskipti á fasteignamarkaði gætu hafist á ný. „Jafnfram þyrftu að koma til heimildir um að eignir sem væru 100% veðsettar gætu skipt um eigendur. En meginatriðið gagnvart rekstri íbúðahúsnæðis er að til lengri tíma getur enginn ætlað sér að greiða af höfuðstól láns sem er langt fyrir ofan verðmæti eignarinnar. Og við sjáum ekki fram á það að þetta misgengi muni leiðréttast á næstu árum á markaðslegum forsendum því húsnæðisverð mun ekkert hækka hraðar en verðbólgan."
En eru þessar hugmyndir raunhæfar? Hefur ríkið og lánastofnanirnar burði til að standa fyrir slíkri lækkun höfuðstólsins? Benedikt segir nokkur svör við þeirri spurningu.
„Í fyrsta lagi er aðgerðarleysið ekki valkostur," segir hann. „Að gera ekki neitt felur í sér að það stefnir í fjöldagjaldþrot sem leiðir til miklu meiri skaða fyrir einstaklingana, efnahagskerfið í heild og líka fjármálastofnanirnar. Það er ekkert vit í þeirri framtíðarsýn að íbúðalánasjóður, nýju bankarnir og lífeyrissjóðirnir haldi á íbúðum í stórum stíl. Það leiðir af sér miklu alvarlegra tjón."
Þá segir Benedikt málið líka snúast um jafnræði. „Þegar bankafallið gekk yfir ákvað ríkisstjórnin að lofa innistæðutryggingum á allar almennar bankainnistæður. Hún ákvað líka að beita sér fyrir því að skilanefndir bankanna keyptu skuldabréf og hlutabréf bankanna út úr peningamarkaðssjóðunum. Með þeim hætti voru fluttir gríðarlegir fjármunir frá almenningi til fjármagnseigenda og núna er komið að því að hinn hluti almennings sem er skuldsettur kalli eftir því að stjórnvöld takist á við tjónið af hruninu með þeim hópi líka."
Í þriðja lagi segir Benedikt að framtíðarskattgreiðendur muni bera megnið tjóninu sem fellur nú á þjóðfélagið. „Það eru fyrst og fremst yngri fjölskyldurnar sem eru skuldsettar í landinu og þær munu þá bera mikinn meirihluta af tjóninu í framtíðinni og þetta er einfaldlega of mikið fyrir þann hóp. Menn verða að takast á við þetta sameiginlega."
En hvaðan eiga peningarnir til þessara aðgerða að koma?
„Þeir fjármunir sem yrðu niðurfærðir með þessum hætti verða á fyrsta stigi að falla á fjármálastofnanirnar," svarar Benedikt. „Ef það kemur í ljós að þessi aðgerð ein og sér hafi áhrif á getu lífeyrissjóðanna til að greiða lífeyri þarf ríkið að hlaupa undir bagga. Eða þá að við gerum það í gegn um lífeyrissjóðina en notum næstu 20 ár til að bæta þeim það upp."
Hann bætir því við að líta megi á slíka aðgerð sem leiðréttingu. „Eignaverð og krónan hefur hrunið en þeir sem halda á verðtryggðum skuldbindingum hafa allt í einu fengið ávöxtun út á hrunið. Það er óraunsætt að reikna með því að fjármagnseigendur fái ávöxtun í gegn um hrunið en það er það sem gerist við þessar sviptingar. Það má líka gagnrýna að vísitala neysluverðs skuli vera notuð sem viðmiðun og miðað við gamlan neyslugrunn. Allir mælikvarðar segja okkur að neysla heimilanna hefur dregist verulega saman á síðustu 6 - 12 mánuðum og hún hefði í raun og veru átt að mæla lækkun en ekki hækkun, ef við værum í raun að tala um vísitölu neysluverðs."