Vill leita að olíu og gasi á Skjálfanda

Grétar Mar Jónsson.
Grétar Mar Jónsson.

Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins varpaði þeirri fyrirspurn til Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra á Alþingi í morgun, hvort hugað hafi verið að því að leita að olíu og gasi á Skjálfandaflóa eða í Flatey á Skjálfanda.

Össur svaraði því til að á sínum tíma, árið 1987, hafi íslenskt stjórnvöld ákveðið að einbeita kröftum sínum að rannsóknum á Drekasvæðinu, enda þótt það sé lengra úti í hafi og að á þeim tíma hafi ekki verið til tækni til þess að vinna olíu af hafsbotni á slíku hafsvæði. Hann telji að það hafi verið framsýn ákvörðun.

Hins vegar séu til vísbendingar um að gas geti verið að finna undir Skjálfanda.

Svo virtist sem miklir kærleikar væru á milli þingmannsins og ráðherrans á þingi í dag. Sagðist ráðherrann ekki vita hvor þeirra ætti að skipta um flokk til að geta verið nær hinum, en lagði til að þeir eyddu ellinni saman í að leita olíu á Skjálfandaflóa. Grétar Mar sagðist hins vegar bera þá von í brjósti að Össur yrði fyrsti olíumálaráðherra Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert