Fréttaskýring: Vísindi sem hafa staðist tímans tönn

Þróunarkenning Charles Darwins er kjarni líffræðirannsókna nútímans og meginhugmyndir þessa vísindamanns, sem lést fyrir rúmri öld, eru enn taldar réttar.

Þróun er grundvöllur allrar líffræði og svo alltumlykjandi að sumir vísindamenn nútímans ganga jafnvel að henni sem gefnum hlut.

Í dag er haldið upp á tvöfalt afmæli Darwins víða um heim en 200 ár eru liðin frá fæðingu hans auk þess sem 150 ár eru liðin frá útgáfu hans á ritinu Um uppruna tegundanna, þar sem hann útlistar byltingarkennda þróunarkenningu sína.

Þróunin mótar og skiptir máli

„Tvær meginkenningar Darwins, þ.e. kenningarnar um náttúrulegt val og þróunartréð, hafa staðist tímans tönn,“ segir Arnar Pálsson, dósent í erfða- og þróunarfræði við Háskóla Íslands. Arnar segir þróun miðlæga í öllum líffræðirannsóknum: „Það er nokkuð sama hvar þú drepur niður fæti í líffræði, hvort þú skoðar plöntur, gerla eða fugla, áhrif þróunar eru alls staðar. Það skiptir því ekki máli hvaða lífvera eða ferli er skoðað, þróunin mótar og skiptir máli fyrir allt sem er að gerast,“ segir Arnar.

Vissulega hafði Darwin ekki alltaf rétt fyrir sér, m.a. vegna þess að ýmsir þættir nútímalíffræði voru óþekktir eins og t.d. erfðafræði. „Einstaka tilgátur Darwins hafa ekki staðist, eins og t.d. spurningar um skyldleika hænsna eða erfðir lífvera. Darwin kom þar með kenningu um erfðir sem er hreinasta bull,“ segir Arnar. Með tilkomu erfðafræði á 20. öld hafi vísindamönnum hins vegar tekist að stoppa í þau göt.

Það tók vísindamenn langan tíma að meðtaka og samþykkja kenningar Darwins. Grundvallarhugmyndin í Um uppruna tegundanna varð fyrst að miðlægri kenningu á fjórða áratug síðustu aldar er sýnt hafði verið fram á að genafræði þess tíma samræmdist kenningu Darwins um náttúrulegt val.

Hugmyndir þess efnis að dýra- og plöntutegundir væru óbreytanlegar og í sinni endanlegu mynd höfðu verið viðteknar og þótti hugmynd Darwins um að lífverur jarðar væru afurð ármilljóna langrar þróunar því byltingarkenndar. Það sem flestum samtímamönnum Darwins þótti þó erfiðast að kyngja var sú niðurstaða kenninga hans að menn og apar ættu sameiginlega forfeður.

Átök á trúarsviðinu

Þróunarkenning Darwins hefur haft djúpstæð áhrif á heim vísindanna en jafnframt valdið titringi innan hinna ýmsu trúarbragða. Hún þykir af mörgum standa í mótsögn við t.d. kristna og íslamska kenningu um að Guð hafi skapað heiminn.

Svo virðist sem kenning Darwins eigi enn undir högg að sækja meðal almennings og er það sérstaklega áberandi í vissum ríkjum Bandaríkjanna þar sem trúarkenningar virðast vísindakenningum yfirsterkari.

Í nýlegri skoðanakönnun sem framkvæmd var af Gallup í Bandaríkjunum kemur fram að um 14% telja að maðurinn hafi orðið til við þróun. 36% segjast viss um að þróun eigi sér stað en undir umsjón Guðs. Þá segist langstærsti hópurinn, eða 44% aðspurðra, vera þeirrar skoðunar að almættið hafi skapað manninn eins og hann er í dag, fyrir í mesta lagi 10.000 árum síðan.

Þróun lífsins

Darwin rökstuddi kenningu sína sem hann setti fram í Um uppruna tegundanna á ýmsan hátt. Hugmyndir hans um þróunina eru sprottnar af djúpum rótum og þær sótti hann í margar áttir, m.a. með því að rannsaka steingervinga, dýrarækt, landfræðilega dreifingu dýra, líffærafræði og plöntur. Þessi samsetning og nálgun úr mörgum áttum gerði það að verkum að Darwin tók eftir ýmsu sem öðrum hafði yfirsést.

Kenningin um náttúrulegt val gefur sér að allar lífverur hafi ákveðið erfðaupplag og að þær sem best eru aðlagaðar umhverfinu á hverjum tíma lifi af.

Kenningin um að líf hafi þróast er ein best staðfesta vísindakenning sem sett hefur verið fram en hún er studd af öllum undirgreinum líffræðinnar auk margra helstu greina jarðfræðinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka