Fær ekki bætur vegna kvótakerfisins

Smábátar í Hafnarfjarðarhöfn.
Smábátar í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af bótakröfu eiganda smábátaútgerðar, sem taldi sig hafa orðið af úthlutun aflahlutdeildar í þorski á árunum 1999 til 2004 vegna lagasetningar um úthlutun aflahlutdeildar í þorski til krókabáta.  

Umrædd lög voru umdeild og taldi útgerðarmaðurinn úthlutun samkvæmt lögunum hafa gengið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár og ákvæðum hennar um vernd atvinnuréttinda og eignarréttinda.

Héraðsdómur segir, að með dómi Hæstaréttar í svonefndu Vatneyjarmáli árið 2000 hafi verið slegið föstu að tilvist gildandi fiskveiðistjórnunarkerfisgangi gangi ekki gegn atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár eða eignaréttarákvæði hennar. 

Segir dómurinn að útgerðarmaðurinn hafi ekki  sýnt fram á að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því við hvaða aflareynslu skyldi miðað þegar ákveðin var aflahlutdeild smábáta í þorski en undir þá reglu voru allir bátar settir sem voru innan sama veiðikerfis.

Þá skipti einnig máli að ekki verði talið sannað að fyrir liggi að útgerðarmaðurinn hafi haft uppi fyrirvara gagnvart þessari úthlutun og að hann átti þess kost a.m.k. í þrígang að velja um annað veiðikerfi. Hefur útgerðarmaðurinn ekk sýnt fram á að með þessu hafi sérstaklega verið brotið gegn rétti hans til atvinnu samkvæmt stjórnarskrá eða gagnvart eignarréttarákvæði hennar en úthlutun veiðiheimilda myndar ekki eignarrétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert