Mikil eftirspurn virðist vera eftir ferðum til útlanda þessa páska og eru margar slíkar ferðir þegar uppseldar.
Ferðaskrifstofur hafa vissulega dregið úr framboði miðað við fyrri ár, en að sögn forsvarsmanna þeirra ferðaskrifstofa sem Morgunblaðið ræddi við hefur ekki verið erfiðara að selja páskaferðir nú en undanfarin ár. Var meðal annars uppselt í þrjár ferðir Úrvals-Útsýnar til Alicante á Spáni og útvega þurfti aukasæti til Tenerife til að anna þeim biðlistum sem höfðu myndast.
„Páskaferðir seljast alltaf vel. Reglan er sú að færri fá en vilja,“ segir Bjarni Ingólfsson, markaðsstjóri Heimsferða.
Það er fyrst og fremst fjölskyldufólk sem fer í páskaferðir, líkt og ferðir um jól og á sumrin, og nýtir þar skólafríin til ferðalaga.