Snjóflóð féll úr svokallaðri Dagmálalág í Húsavíkurfjalli um hádegisbil í dag. Tveir unglingspiltar sem voru í fjallinu urðu fyrir flóðinu og grófst annar þeirra upp að höndum. Piltunum tókst að losa sig og komust þeir heilu og höldnu niður úr fjallinu.
Flóðið féll rétt ofan við skíðasvæðið. Sést hafði til tveggja drengja en óttast var að fleiri kynnu að hafa verið í fjallinu. Björgunarsveitin Garðar á Húsavík var kölluð út og var hún komin á staðinn örfáum mínútum síðar með leitarhund auk þess sem bæjarbúar komu til aðstoðar.
Eftir ítarlega eftirgrennslan björgunarsveitar og lögreglu bendir allt til þess að enginn hafi lent í flóðinu en brettaslóð er yfir flóðið og niður með því.
Lögregla segir ekki óalgengt að flóð falli á þessum slóðum, ekki síst í tíð eins verið hefur að undanförnu. Töluvert hefur snjóað í fjallið og þegar hlýnar er varasamt að vera í fjallinu. Lögregla varar fólk við að vera á ferli á þessum slóðum vegna flóðahættu.