Raddir fólksins funduðu með forsætisráðherra

Frá mótmælunum á Austurvelli.
Frá mótmælunum á Austurvelli. mbl.is/Ómar

Raddir fólksins standa fyrir mótmælafundi á Austurvelli á morgun kl. 15.  Þetta er nítjandi mótmælafundurinn í röð. Talsmenn samtakanna áttu fund með forsætisráðherra í dag þar sem staða seðlabankans og Davíðs Oddssonar var rædd. 

Yfirskrift fundarins er sem fyrr „Breiðfylking gegn ástandinu“. Fram kemur í tilkynningu að krafan sé skýr: „Stjórn Seðlabankans verður að víkja.“

„Talsmenn Radda fólksins áttu fundi með viðskiptaráðherra og forseta ASÍ miðvikudaginn 11. febrúar sl., svo og forsætisráðherra föstudaginn 13. febrúar. Staða Seðlabankans og hústaka Davíðs Oddssonar var m.a. rædd á þessum fundum og ljóst að ráðherrar og forseti ASÍ eru sammála um þjóðhagslegt mikilvægi þess að leysa stjórnunarvanda Seðlabankans með öllum ráðum,“ segir í tilkynningunni.

Að þessu sinni munu þau Elísabet Jónsdóttir, sem er ellilífeyrisþegi, og Ágúst Guðmundsson leikstjóri ávarpa fjöldann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka