Flugvél Iceland Express frá Stansted flugvelli við Lundúnaborg sem átti að lenda klukkan tvö í nótt lendir ekki fyrr en klukkan 13:00 í dag. Eins hefur flugi til Stansted sem átti að fara héðan klukkan 7:30 verið seinkað til klukkan 14:00. Ástæðan fyrir seinkuninni er snjókoma á flugvellinum.
Segir á vefnum Icenews að farþegar sem voru á leið til Íslands í gærkvöldi hafi verið komnir um borð í vél Iceland Express þegar hætta þurfti við brottför vegna snjókomu. Var snjókoman of mikil til þess að starfsmenn flugumsjónar gætu fylgst með flugtaki vélarinnar.
Meðal farþega í vélinni var hópur enskra menntaskólanema sem ætluðu að eiga langa helgi á Íslandi. Ljóst er að dvölin á Íslandi verður mun styttri heldur en til stóð.
Samkvæmt upplýsingum Icenews frá forsvarsmönnum Stanstead flugvallar átti að rigna samkvæmt veðurspá. Hins vegar breyttist rigningin í snjókomu og kom í veg fyrir brottför flugvéla frá flugvellinum í gærkvöldi.