„Áður var reglan sú að duglegt fólk fékk vinnu og þannig ól ég upp börnin mín: menntaðu þig, vertu duglegur og ábyrgur og þá verður allt í lagi. En þetta er allt breytt,“ segir Ólafía Ólafsdóttir innanhúsarkitekt, sem er ein hundraða íbúa Suðurnesja sem misst hafa vinnuna í kjölfar kreppunnar.
Sjálf var Ólafía að taka fyrstu skrefin í átt að sjálfstæðum rekstri þegar markaðurinn hrökk í baklás. „Ég átti von á því að geta farið vel af stað og var búin að koma mér upp skrifstofuhúsnæði sem ég vann að á kvöldin, þegar þetta gerist allt saman og verkefnin sem ég hafði átt von á hurfu. Það byrjaði á því að menn sögðust aðeins ætla að bíða og sjá til, en í raun er ennþá biðstaða.“
„Ég upplifi þetta þannig, og ég held að margir aðrir geri það líka, að mér finnst eins og sjálfstæðið hafi verið tekið af mér. Ég sem er harðdugleg, heilbrigð, vel menntuð og full af krafti ... allt í einu gat ég ekki það sem ég ætlaði, en það var ekki ég sjálf sem stoppaði mig. Í raun geng ég á vegg og möguleikarnir á að lifa því lífi sem ég hafði sett mér og stefnt að lokast.“
Þrátt fyrir að hátt í 15 þúsund manns séu nú skráðir atvinnulausir á Íslandi segir Ólafía að fyrir marga sé umræðuefnið enn viðkvæmt. „Ég skammaðist mín pínulítið fyrst. Og svo fylgja þessu áhyggjur um hvernig maður á að framfleyta sér og hvað gerist næst.“
Vilt þú segja þína sögu?