Formenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands hafa verið boðaðir til fundar á mánudag til að ræða hugmynd miðstjórnar og forseta ASÍ um að fresta endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að koma til 1. mars nk.
Félagsmenn í ASÍ eru ríflega 108.000 í 5 landssamböndum og 64 aðildarfélögum um land allt. Þar af eru ríflega 98.000 virkir á vinnumarkaði. Stærsta landssambandið er Starfsgreinasamband Íslands með rúmlega 53 þúsund félagsmenn í 24 félögum.
Mjög skiptar skoðanir eru um hugmynd 15 manna miðstjórnar og forseta ASÍ. Fjölmörg félög innan Starfsgreinasambands Íslands hafa krafist þess að atvinnurekendur standi við gerða samninga og hafnað því algerlega að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna.
Þau félög sem hafa gagnrýnt þessa hugmynd harðlega eru t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn Stéttarfélag, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Afl - starfsgreinafélag Austurlands og Drífandi í Vestmannaeyjum.
Önnur hafa talið skynsamlegt að fresta opnunarákvæðum kjarasamninga fram yfir ríkisstjórnarmyndun að afloknum kosningum til Alþingis í vor. Hins vegar yrði leitast við að ná meginmarkmiðum kjarasamningsins en það þýðir að reynt verði að ná nýju samkomulagi um tímasetningu kaupliða meðan aðrir liðir og samningurinn sjálfur halda gildi sínu.
Meðal félaga sem telja þessa leið skynsamlega eru Eflinga-stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur.
Tekist verður á um hugmyndir miðstjórnar og forseta ASÍ á fundinum á mánudag en afstaða fyrrgreindra félaga birtist glöggt í ályktunum sem samþykktar hafa verið síðustu daga.