„Mér finnst í ljósi athugasemda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og raunar fleiri athugasemda sem hafa komið fram, að það þurfi með einhverjum hætti að hugsa þetta mál upp á nýtt. Jafnvel að leggja núverandi stjórnarfrumvarp til hliðar og skrifa nýtt,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í viðskiptanefnd Alþingis. Nefndin situr nú á fundi og ræðir stjórnarfrumvarp um Seðlabanka Íslands.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í athugasemdum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á seðlabankalögum, að í öðrum löndum séu venjulega einn eða tveir aðstoðarseðlabankastjórar auk aðalbankastjórans. Þá segir að yfirleitt sé ekki kveðið á í lögum um slík embætti hvaða menntun seðlabankastjóri eigi að hafa heldur gerð krafa um viðurkennda þekkingu og reynslu.
Í Seðlabankafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ákvæði um fimm manna peningastefnunefnd, sem skipuð er seðlabankastjóra, tveimur yfirmönnum bankans og tveimur mönnum sem seðlabankastjóri skipar til þriggja ára í senn. Um það segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að venjan sé, þar sem slíkar nefndir eru, að skipunartími nefndarmanna sé venjulega ekki styttri en skipunartími þess einstaklings eða stjórnvalds sem skipar þá. Ella kunni svigrúm þeirra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, að skerðast.
„Mér sýnist aðalatriði málsins vera það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að gera athugasemdir við alla meginþætti frumvarpsins. Þetta eru ekki bara tæknilegar athugasemdir eins og haldið var fram fyrr í vikunni, heldur er þetta veigamiklar athugasemdir við öll helstu efnisatriði frumvarpsins. Þetta eru sömu athugasemdir og við sjálfstæðismenn höfum bent á hér við umræður í þinginu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur auðvitað á að skipa sérfræðingum á sviði seðlabankalöggjafar og er mjög oft með í ráðum þegar verið er að semja slíka löggjöf vítt og breitt um heiminn. Þess vegna finnast mér athugasemdir hans að þessu leyti hafa verulega mikið vægi,“ segir Birgir Ármannsson.
Hann gagnrýnir aðdraganda málsins og segir undirbúning og segir að það virðist hvorki hafa átt sér stað fagleg vinna né pólitískt samráð í aðdraganda þess.
„Málinu er hent fram án þess að tala við nokkurn sem er auðvitað einstakt ef við horfum til þess að þegar seðlabankalögum hefur verið breytt hér áður þá hefur það alltaf átt sér vandaðan, faglegan aðdraganda og víðtækt pólitískt samráð. Þetta er lykilstofnun í samfélaginu og alltaf þegar seðlabankalöggjöfinni hefur verið breytt hefur það byggst á vönduðum, faglegum undirbúningi og víðtæku pólitísku samráði. En hvorugu er fyrir að fara núna. Mér finnst blasa við að það þurfi að skrifa nýtt frumvarp,“ segir Birgir Ármannsson.
Viðskiptanefnd Alþingis hefur verið send umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nefndin situr nú á fundi og ræðir seðlabankafrumvarp ríkisstjórnarinnar.