Tveir piltar á 16. ári voru á Húsavíkurfjalli þegar snjóflóð féll úr svokallaðri Dagmálalág fyrr í dag. Annar pilturinn lenti í flóðinu, en það náði honum upp að brjósti. Hann slapp ómeiddur og náði að grafa sig lausan. Hann gekk svo upp á topp þar sem vinur hans beið. Þeir renndu sér síðan niður á snjóbrettum.
„Þetta var óþægileg tilfinning og ég var dálítið hræddur á leiðinni niður,“ sagði Friðrik Marinó Ragnarsson, sá sem lenti i flóðinu, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
„Þeir voru bara í bakaríinu að fá sér hressingu á meðan verið var að leita,“ segir Ragnar Þór Jónsson, faðir Friðrik Marinós. Á meðan voru „foreldrarnir sturlaðir á jörðu niðri,“ bætir hann við. Á fjórða tug tók þátt í að leita að piltunum. Í dag var frjáls dagur í skólanum, svokallaður útivistardagur.
Piltarnir gerðu sér ekki grein fyrir þessu fyrr en þeir mættu á leikæfingu í dag, en þeir taka þátt í uppfærslu skólaleikrits. „Þá eru krakkarnir alveg skelfingu lostnir og spyrja hvort þeir séu búnir að láta vita að þeir séu fundnir,“ segir Ragnar. Um hálftími leið frá því leit hófst þar til piltarnir áttuðu sig á því að verið væri að leita að þeim. „Þetta var mjög erfiður hálftími,“ segir Ragnar.
„Hann varð ekkert hræddur þar til hann gerði sér grein fyrir því eftir á að þetta var alvarlegt,“ segir Ragnar um son sinn. Drengirnir voru að ganga upp fjallið þegar flóðið féll.
Ragnar var skammt frá svæðinu þegar flóðið féll, sem hafi verið mjög þungt og um þriggja til fjögurra metra djúpt. Hann segist hafa heyrt af því að einhverjir hafi orðið undir flóðinu og því hafi hann ákveðið að bjóða fram aðstoð sína. Stuttu síðar fékk hann að vita að það væri verið að leita að syni hans. „Þá varð manni frekar brugðið,“ segir Ragnar, sem reyndi að hringja í son sinn en án árangurs, þar sem pilturinn hafði gleymt farsímanum sínum heima.
Lögreglan hafði hins vegar sagt við Ragnar að það væru miklar líkur á því að enginn hefði orðið undir flóðinu. Menn hafi hins vegar viljað leita af sér allan grun.