Samtök atvinnulífsins segja að stór U-beyja gagnvart atvinnulífinu sé tekin í fyrstu skýrslu nefndar um endurreisn fjármálakerfisins sem kynnt var á blaðamannafundi í vikunni. Meginatriðin í tillögugerð nefndarinnar gangi í veigamiklum atriðum gegn stefnumörkun fyrrverandi ríkisstjórnar frá 2. desember um aðgerðir í þágu fyrirtækja sem unnin hafi verið í samráði við Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og fleiri hagsmunaaðila.
„Því verður ekki trúað að það sé ætlan ríkisstjórnarinnar að taka svona tillögugerð alvarlega eins og gefið hefur verið í skyn. Þessi tillögugerð er algjörlega unnin án samráðs við Samtök atvinnulífsins og fær aldrei stuðning þeirra. Framkvæmd þessara tillagna leiðir til mikils ófarnaðar og framlengir erfiðleikana í atvinnulífinu um mörg ár ef ekki áratugi," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA í pistli á vef samtakanna.