Vegfarendur beðnir um að sýna aðgát

Flughálka er að myndast víða um land og er fólk beðið um að sýna aðgát og athuga akstursskilyrði áður en lagt er af stað. Snjóþekja er á Sandskeiði og í Þrengslum en hálka er á Hellisheiði. Annars er hálka og hálkublettir víðast hvar.

Á Vesturlandi er hálka og sumstaðar snjóþekja. Flughálka er á Fróðárheiði í Dölum og í Svínadal. Einnig er flughálka víða í uppsveitum Borgarfjarðar.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir. Þæfingsfærð er þó á Klettsháls en unnið er að mokstri. Flughálka er á Bárðarströnd.

Á Norðurlandi er víða hálka eða snjóþekja. Á Norðausturlandi er hálka og víða skafrenningur eða einhver éljagangur. Hálka og skafrenningur er á Mývatnsheiði og í kringum Mývatn.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja. Hálka og skafrenningur er á Mývatnsöræfum. Ófært er á Mývatnsöræfum og þæfingsfærð er á Hárekstaðaleið en mokstur stendur yfir. Hálka og skafrenningur er á Fagradal og þæfingsfærð er á Oddskarði en þar er unnið að mokstri.

Á Suðausturlandi er hálka, einhver snjóþekja og krapasnjór. Flughálka er á Mýrdalssandi, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert