Danir fagna því nú, að Íslendingasögurnar verði brátt gefnar út óritskoðaðar á dönsku. Danska blaðið Politiken segir á vef sínum í dag, að hinn íslenski getnaðarlimur fái nú loks uppreisn æru en í dönskum þýðingum hafi berorðum köflum í Íslendingasögunum verið sleppt.
Blaðið segir m.a. að í upphafi Njálu sé fjallað um kynlífserfiðleika hjóna og er blaðið væntanlega að vísa til þess þegar Unnur kvartar yfir því við Mörð föður sinn, að hörund Hrúts, eiginmanns hennar, sé svo mikið að hann megi ekki hafa eftirlæti við hana. Blaðið segir, að þetta standi að minnsta kosti í gömlu íslensku kálfskinnshandritunum - en ekki í dönsku þýðingunni. Til þessa hafi Danir aðeins getað lesið ritskoðaða útgáfu þar sem allar tilvísanir til kynlífs söguhetjanna séu fjarlægðar en aðeins vísað til hjónabandserfiðleika.
Brátt eigi Danir þó þess kost að lesa Íslendingasögurnar eins og þær voru skrifaðar fyrir sjö öldum því von sé á nýrri útgáfu 45 Íslendingasagna eftir um það bil tvö ár.
Til stendur að gefa Íslendingasögurnar út í óstyttri útgáfu í Svíþjóð, Danmörku og Noregi árið 2011. Hefur blaðið eftir Kim Lembek, einum af dönsku þýðendunum, að þetta sé löngu tímabært. Um er að ræða samnorrænt verkefni á vegum Saga forlags, sem stofnað var vegna þessa. Um er að ræða stærsta þýðingarverkefni sem ráðist hefur verið í á Norðurlöndum. Er áætlað að það muni kosta um 17 milljónir danskra króna, eða nærri 290 milljónir íslenskra króna. Hefur norræni menningarsjóðurinn m.a. styrkt verkefnið. Lembeck bendir á að þar sem verkefnið sé fjármagnað með þessum hætti þá muni núverandi efnahagskrísa á Íslandi ekki hafa neikvæð áhrif á útfærslu verksins.
Lembek segir, að ritskoðunin á Njálu sé alls ekki eina dæmið því danskar útgáfur Íslendingasagnanna séu mjög ritskoðaðar. Þegar N.M. Petersen þýddi þær í kringum 1840 mátti ekki skrifa hvað sem er í Kaupmannahöfn. Þegar Johannes V. Jensen var meðal þýðenda sagnanna í kringum árið 1930 hafi hann litið á þær sem hetjubókmenntir og því ákveðið að fjarlægja alla kímni og grófleika úr textanum.
„Við höfum því aðeins fengið hálfa söguna sem gefur alranga mynd af Íslendingasögunum. Í raun eru þær afar fjölbreyttar og margþættar og innihalda allt frá því gróteska til þess harmræna," segir Lembek.
Að sögn Lembek er stefnt að því að nýju þýðingarnar verði lesvænni fyrir nútímafólk. „Markmiðið er að textarnir höfðu jafnt til fólks á öllum aldri, þannig að tungumálið verði ekki of framandi,“ segir Lembeck. Bendir hann á að ein áskorun þýðenda felst í því að þýða íslensk orð sem ekki séu til í svipaðri mynd á dönsku. Fyrri þýðendur reyndu að gefa textunum gamalt yfirbragð með því að búa til orð, sem hljómuðu fornnorræn og gáfu, að þeirra mati, textunum aukið vægi. Í dag eru þessi orð hins vegar fullkomlega óskiljanleg.
„Þetta eru orð sem virðast okkur framandi og sem ekki er hægt að finna í dönskum orðabókum. Í Grettis sögu hef ég t.d. fundið orðið „ældemødig“ sem ekki er til á dönsku. Ég held að Gunnar Gunnarsen þýðandi hafi búið til sitt eigið danska afbrigði af íslenska orðinu „ellimódr“ en á íslensku merkir orðið í raun bara dauðþreyttur eða veikburða af elli,“ útskýrir Kom Lembeck.