Tilnefningar til blaðamannaverðlauna birtar

Blaðamenn ræða við Geir H. Haarde.
Blaðamenn ræða við Geir H. Haarde. mbl.is/Golli

Blaðamannafélag Íslands birti á miðnætti tilnefningar til blaðamannaverðlaunanna fyrir árið 2008. Þau Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, mbl.is, Jóhann Hauksson, DV og Sigrún Davíðsdóttir, Ríkisútvarpinu, eru tilnefnd til Blaðamannaverðlauna ársins. Verðlaunin verða veitt eftir viku.

Þóra Kristín var tilnefnd fyrir vandaðar fréttir á mbl.is  þar sem hún nálgaðist frumlega málefni líðandi stundar og netmiðillinn var nýttur með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun. Jóhann var tilnefndur fyrir fréttaskrif og umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmál sem báru vitni um mikil tengsl, reynslu og skilning, og voru iðulega fyrstu fréttir af málum. Sigrún var tilnefnd fyrir pistla þar sem nýjum hliðum á fjölmörgum málum var velt upp. 

Tilnefningar fyrir rannsóknarblaðamennsku  hlutu Atli Már Gylfason og Trausti Hafsteinsson, DV, fyrir umfjöllun um kynþáttafordóma meðal ungs fólks á Suðurnesjum og margvísleg áhrif þeirra, Brynjólfur Þór Guðmundsson og Erla Hlynsdóttir, DV, fyrir greiningu á eftirlaunum ráðamanna og áhrifum eftirlaunafrumvarpsins, og Sigurjón M. Egilsson, Mannlífi og Bylgjunni, fyrir greinar og útvarpsþætti um íslenskt efnahagsástand og þjóðmál.

Tilnefndir fyrir bestu umfjöllun ársins eru Baldur Arnarson, Morgunblaðinu, fyrir greinaflokkinn Ný staða í norðri, þar sem farið var yfir þær náttúrufarslegu, efnahagslegu, félagslegu og pólitísku breytingar, sem hlýnun andrúmslofts og breytt staða á norðurslóðum hefur í för með sér, Brjánn Jónasson, Fréttablaðinu, fyrir skrif um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, og Ragnar Axelsson og Önundur Páll Ragnarsson, Morgunblaðinu, fyrir umfjöllun um virkjunarkosti á Íslandi.

Tilnefningarnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert