Íslenska þjóðin er í raun stödd í miðju sorgarferli sem tekið getur 2-3 ár. Að baki eru tímabil tilfinningaleysis og doða, við erum nú í miðri upplausninni, en framundan eru tímabil uppgjörs við fortíðina og aðlögun að breyttum raunveruleika.
Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur, en hann hélt í dag erindi í Hallgrímskirkju undir yfirskriftinni Hrunið og vonin. Vilhjálmur hefur ásamt Stefáni Einari Stefánssyni, viðskiptasiðfræðingi, flutt erindi á þessum nótum í kirkjum landsins að undanförnu.
Í samtali við mbl.is segist Vilhjálmur fyrst hafa kynnst sorgarferlinu af eigin raun þegar honum hafi skyndilega verið sagt upp störfum, þar sem hann gegndi stöðu útibússtjóra hjá Búnaðarbankanum, fyrir rúmum tuttugu árum, en skömmu síðar missti hann föður sinn.
Hvorki auðhyggja né frjálshyggja heldur glæpastarfsemi
Segist hann hafa séð að mjög margt væri líkt með sorgarferlinu sem tengdist andlátinu og því sorgarferli sem tengdist skyndilegum atvinnumissi og út af því leggi hann m.a. í erindi sínu, auk þess sem hann fari yfir ýmsar tölulegar upplýsingar.
Undirtitill erindis hans er einmitt: „Hvernig gat íslensk þjóð leiðst út í skuldir sem eru hærri en tölum tekur?“ Að sögn Vilhjálms brugðust allir þegar kom að hruni stóru viðskiptabankanna þriggja, bæði stjórnendur, stjórnarmenn, innri endurskoðendur, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands svo einhverjir séu nefndir.
„Rekstur íslensku bankanna byggðist hvorki á auðhyggju eða frjálshyggju,“ segir Vilhjálmur og vísar þar annars vegar til auðhyggju Kalvins og Max Webers, sem hafði iðjusemi og sparsemi að leiðarljósi, og frelsi Johns Stuarts Mills sem kvað á um það að heimilt sé að gera hvað sem er svo framarlega sem það skaði ekki aðra.
Ekki hægt að fyrirgefa þeim sem ekki biðjast afsökunar
Fyrirgefningin getur oft orðið fyrirferðarmikil í sorgarferlinu. Að sögn Vilhjálms er forsenda þess að hægt sé að fyrirgefa sú að sá sem hafi brotið á manni biðjist fyrirgefningar. „Það hefur hins vegar enginn ennþá gert og því er ekki hægt að fyrirgefa,“ segir Vilhjálmur og tekur fram að hann sé þess fullviss að takast muni að draga ábyrgðarmenn bankahrunsins til ábyrgðar fyrir dómstólum, enda sé nú orðið morgunljóst að bankarnir hafi verið tæmdir innanfrá.
Spurður í hverju vonin felist sem hann boði í yfirskrift erindis síns segir Vilhjálmur m.a. sjá hana í því mikla hugviti sem sé að finna hérlendis sem birtist í nýsköpun og þróun t.d. á sviði læknisfræðinnar, lyfjaþróunar og starfsemi Össurar hf. og Marels hf.
„Ef við hefðum nú fleygt peningum í þetta í stað þess að fleygja þeim út um gluggann þá hefði það skilað okkur einhverju,“ segir Vilhjálmur og tekur fram að ekki megi bara einblína á mannaflsfrekar framkvæmdir í komandi atvinnuuppbyggingu. „Það er talað um að það þurfi mannaflsfrekar framkvæmdir til að byggja vegi, en það er hægt að byggja ýmsar hraðbrautir í nýsköpun,“ segir Vilhjálmur og bendir á að mikilvægt sé að stuðla að atvinnuuppbyggingu sem sé sambland af atvinnusköpun fyrir faglærða og ófaglærða. „Við erum aldrei svo blönk að við höfum ekki efni á að hugsa.“
Alþingi aldrei tekið ákvörðun um efnahagsmál hérlendis
Að mati Vilhjálms mun íslensk þjóð ekki komast út úr fjárhagshremmingum sínum nema með aðstoð annarra ríkja. Segir hann ríkisstjórn, Alþingi og Seðlabankinn ekki hafa mátt til þess að leysa það risavaxna verkefni sem þjóðin standi andspænis án utanaðkomandi aðstoðar. „Aðrar þjóðir koma hins vegar ekki hér nálægt nema Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé samræmingaraðili,“ segir Vilhjálmur. Hann telur að innganga upptöku evru mikilvæg skref í átt til efnahagsbata hérlendis.
Vilhjálmur beinir í erindi sínu sjónum að þeirri staðreynd að Alþingi hafi aldrei tekið neina grundvallarákvörðun í efnahagsmálum þjóðarinnar. Nefnir hann að sú ráðstöfun að gengi gjaldmiðilsins skuli ákveðið í Seðlabankanum hafi verið ákveðið með bráðabirgðalögum árið 1961 framhjá Alþingi. Einnig hafi heimild til almennrar verðtryggingar verið lögfest sem aukaatriði með frumvarpi til laga um stjórn efnahagsmála. Ekki liggi heldur fyrir ákvörðun Alþingis í tengslum við frjálsa vexti, heldur hafi þeir verið heimilaðir á grundvelli gleymds ákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands í andstöðu við forsætisráðherra þegar hann var í fríi.
Vilhjálmur og Stefán Einar flytja næst erindi sín á Akranesi miðvikudaginn 18. febrúar og í Borgarnesi miðvikudaginn 25. febrúar.