Matarhátíðin Food and Fun verður haldin í áttunda sinn dagana 18.-22. mars. Siggi Hall matreiðslumeistari sagði að hátíðinni hefði verið seinkað um nokkrar vikur vegna efnahagsástandsins. Hún hefur venjulega verið haldin um mánaðamót febrúar og mars.
„Það vilja allir að hátíðin verði haldin. Hún er orðinn fastur viðburður eins og 17. júní og verslunarmannahelgin,“ sagði Siggi. Hann hefur verið í forystu keppninnar ásamt Baldvini Jónssyni frá upphafi.
Í ár verður fyrirkomulagi keppni matreiðslumeistara á Food and fun breytt svolítið frá fyrri keppnum. M.a. verður henni sjónvarpað. Siggi segir að keppnin njóti orðið mikillar virðingar og sé orðin eftirsótt enda alvöru keppni. Matreiðslumeistarar vilji gjarnan hafa þátttöku í Food and fun á ferilskránni. Það hefur aukið hróður keppninnar að norski matreiðslumeistarinn Geir Skeie, sem vann Food and fun í fyrra, sigraði í hinni virtu frönsku matreiðslukeppni Bocuse d'Or í vetur. Sænski matreiðslumeistarinn Jonas Lundgren sem varð þar í öðru sæti vann Food and fun-keppnina fyrir þremur árum. Þá hafa einir fjórir dómarar í Bocuse d'Or verið dómarar í Food and fun keppninni.
„Nú verður meira lagt upp úr alvöru keppninnar en við gleymum ekki „fun-inu“ (skemmtuninni). Fjörið verður út um allan bæ í ýmsum uppákomum og á veitingastöðum,“ sagði Siggi Hall. gudni@mbl.is