Lyfjaútgjöld lækka um milljarð

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hélt blaðamannafund í heilbrigðisráðuneytinu í dag.
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hélt blaðamannafund í heilbrigðisráðuneytinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lyfjaútgjöld sjúkratrygginga eiga að lækka um milljarð miðað við heilt ár. Þetta kom fram í máli Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra,  á blaðamannafundi í dag.

Ögmundur hefur gefið út reglugerð sem hefur í för með sér umtalsverðar breytingar á niðurgreiðslum vegna lyfjakostnaðar sjúklinga. „Með reglugerðinni er lögð áhersla á að beina lyfjanotkun í ódýrari lyf, og að notkun lyfja hér verði ekki ólík því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þá er sérstaklega er komið til móts við barnafjölskyldur og atvinnulausa.

Með því að breyta neyslumynstri algengra lyfja á að spara 450 til 550 milljónir króna á ársgrundvelli. Lyfin eru magalyf og blóðfitulækkandi lyf. Báðir lyfjaflokkarnir eru mikið notaðir á Íslandi og hafa aukið lífsgæði sjúklinga verulega, en heilsuhagsfræðilega þykir ekki verjandi að nota dýrustu lyfin, nema í undantekningatilvikum. Bara með því að nota ódýrustu lyfin næst fram hundruð milljóna króna sparnaður bæði fyrir ríkið og viðkomandi sjúklinga.

Alls þýða aðgerðir heilbrigðisráðherra að lyfjaútgjöld sjúkrtatrygginga lækka um 1000 milljónir miðað við heilt ári,“ segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Fram kom á blaðamannafundinum að lyfjakostnaður allra barna verði lækkaður með því að börn eða foreldrar, sem greiða fyrir lyf þeirra, greiða nú sama gjald og elli- og örkorkulífeyrisþegar. Þá eiga einstaklingar á fullum atvinnuleysisbótum að greiða sama gjald og elli- og örorkulífeyrisþegar.

Þök og gólf, sem ákvarða hvernig lyfjaverði skiptist milli sjúklings og almannatrygginga, breytast, en það hefur ekki breyst frá árinu 2001.

Þá hefur lyfjagreiðslunefnd lækkað heilsöluverð og smásöluálagningu. Síðar á árinu mun smásöluálagning mögulega lækka meira.

Komið verður til móts við þá sem nota þunglyndislyf, veiru- og mígrenilyf. Þetta er gert með því að afnema svokallaða hámarksafgreiðslureglu, sem þýðir að sjúklingar geta nú fengið ávísað lyfjum til lengri tíma með tilheyrandi minni kostnaði.

Verið er að beina lyfjanotkun í ódýrari lyf og er ætlunin að lyfjanotkun hér verði líkt notkun á hinum Norðurlöndunum. Hér er verið að höfða til lækna og fá þá til að þróa hjá sér kostnaðarvitundina, að því er fram kom á blaðamannafundinum.

Þurfi fólk á dýrari lyfjum að halda verði að sjálfsögðu hægt að sækja um undanþágu til þess og rökstyðja það þá. Fram kom á blaðamannafundinum að þetta eigi ekki að koma niður á sjúklingum á neinn hátt. Ef dýrari lyf séu í raun betri fyrir sjúklinginn muni hann fá þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka