Mun Herjólfur sigla í Bakkafjöru?

Unnið að framkvæmdum við Landeyjarhöfn,
Unnið að framkvæmdum við Landeyjarhöfn, mbl.is/Steinunn Ósk

Verið er að skoða hvort hægt sé að nota Vestmannaeyjaferjuna til siglinga milli Eyja og Landeyjahafnar. Þetta segir Grímur Gíslason, sem hefur lengi tekið þátt í undirbúningi aukinna ferjusiglinga milli lands og Eyja.

Ákveðið var undir lok síðasta árs að fresta smíði nýrrar ferju sem myndi sigla milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Grímur segir í grein á vefnum Eyjafréttum.is, að nú sé helst til skoðunar hjá Siglingastofnun, að nota núverandi Herjólf til siglinga í Bakkafjöru, þegar höfnin þar verði tilbúin til notkunar um mitt ár 2010. Þetta þurfi ekki að  vera slæm­ur kostur og vert að skoða hann.

Grímur segir, að verið sé að kanna möguleika á að dýpka niður á sandrifið þannig að djúprista skipsins verði ekki takmarkandi þáttur við innsiglingu í höfnina. Slík dýpkun færi þá fram einu sinni til tvisvar á ári.

„Það er mikill munur á því hvort siglt er tæpa 3 tíma til Þor­lákshafnar eða hálftíma í Bakka­fjöru og núverandi Herjólfur getur að mínu mati vel leyst það verkefni að sigla milli Eyja og Bakkafjöru. Herjólfur er öflugt og gott sjóskip sem reynst hefur vel og stálið er í lagi þó að skipið sé að verða 17 ára. Að sjálfsögðu þarf að fara í endurbætur á skipinu. Endurnýja vél­búnað, farþegaaðstöðu og fleira, sem orðið er lúið, og einnig að gera breytingar sem nauðsynlegar eru til að skipið uppfylli nýjar öryggis­kröfur. Að slíkum endurbótum loknum er ekkert því til fyrirstöðu að skipið geti vel leyst þetta verk­efni næstu árin," segir Grímur m.a.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert