Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, segir á heimasíðu sinni að bráðabirgðalög sem sett voru sumarið 2008 um tjónabætur vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi, hafi verið þarflaus. Þáverandi viðskiptaráðherra, sem var Björgvin G. Sigurðsson, hafi með stuðningi ríkisstjórnarinnar misnotað bráðabirgðalagavaldið í máli sem snerti einungis kjósendur hans í Suðurkjördæmi.
Kristinn vísar í svar við fyrirspurn, sem hann lagði fram á Alþingi. Segir hann svarið sýna, að bráðabirgðalögin hafi haft þau einu áhrif að tjónabætur vegna lausafjármuna, sem Viðlagatrygging Íslands greiddi vegna Suðurlandsskjálftans í maílok, urðu 28 milljónum króna hærri en lögin kváðu á um. Upphæðin deilist á 629 tjón og því sé um 45.000 krónur að ræða í hverju tjóni.
Kristinn segir að hægur vandi hefði verið að lækka sjálfsábyrgð í hverju tjóni á lausafjármunum með lagabreytingu eftir að Alþingi kæmi saman um haustið. Mat og uppgjör tjóna taki marga mánuði og sé reyndar ekki að fullu lokið enn. Ekki séu sjáanleg nein rök fyrir því að beita ákvæði stjórnarskrárinnar og setja bráðabirgðalög í skyndingu enda engir stórvægilegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir einstaklingana sem urðu fyrir tjóni.
„Auðvitað gat ráðherrann beitt sé fyrir lagabreytingu og lækkun á sjálfsábyrgðinni og víst er að málið er ekki svo stórt að það taki því að gera ágreining um það. En kjarni málsins er sá að augljóslega var þáverandi viðskiptaráðherra með stuðningi ríkisstjórnarinnar að misnota bráðabirgðalagavaldið í máli sem snerti einungis kjósendur hans í Suðurkjördæmi. Þetta mál undirstrikar skýrt að ráðherrum er ekki treystandi fyrir löggjafarvaldinu. Þeir munu misnota það," segir Kristinn.