Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra, fjallar um ummæli forseta Íslands, Ólafs Ragnar Grímssonar, á fundi með erlendum sendiherrum í Reykjavík, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að frásögn annarra sendiherra staðfesti skýrslu sendiherra Noregs um þennan hádegisverðarfund.
„Það hefur verið annríki á forsetaskrifstofu að undanförnu. Þaðan hafa streymt leiðréttingar á ummælum fjölmiðla, sem hafa misskilið forseta Íslands hrapallega og haft eftir honum orð og yfirlýsingar, sem hann segir engan fót fyrir. Þetta er ekki nýtt. Í haust flutti forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson ræðu í hádegisverðarboði með erlendum sendiherrum í Reykjavík. Skýrsla sendiherra Noregs um þennan hádegisverð til utanríkisráðuneytisins í Ósló rataði með einhverjum hætti á síður norska blaðsins Klassekampen. Þótti frásögn blaðsins af skýrslunni og ræðu forsetans mikið fréttaefni.
Nokkru síðar kom Ólafur Ragnar Grímsson í Kastljós Sjónvarpsins til að bera af sér sakir vegna ummæla, sem vitnað var til í frásögn Klassekampen af skýrslu norska sendiherrans. Í umræddu hádegisverðarboði í danska sendiráðinu voru auk sendiherra Danmerkur, sendiherrar Kanada, Finnlands, Frakklands, Kína, Japans, Noregs, Póllands, Rússlands, Bretlands, Svíþjóðar, Þýskalands og Bandaríkjanna. Fulltrúar 13 landa af 14, sem starfrækja sendiráð í Reykjavík. Skemmst er frá því að segja að Ólafur Ragnar Grímsson sagði í Kastljósi, að ekki væri mark á sendiherraskýrslum takandi. Það segði hann í ljósi langrar reynslu af lestri slíkra skýrslna. Hann lýsti sendiherra Noregs á Íslandi ósannindamann. Ekkert væri hæft í því, sem fram kæmi í Klassekampen úr frásögn sendiherrans. Það væri til dæmis af og frá að hann hefði nefnt, að Rússum stæði aðstaða á Íslandi til boða.
Sá sem þetta skrifar hefur ekki lesið frásögn norska sendiherrans, sem kveikti þessa umræðu í fjölmiðlum. Hann hefur hinsvegar lesið frásögn annars sendiherra af þessum hádegisverðarfundi. Sú frásögn staðfestir, að norski sendiherrann og norska dagblaðið Klassekampen fóru rétt með um það, sem fram fór á þessum fundi. Ólafur Ragnar sagði þar meðal annars, að Rússum stæðu allar dyr opnar á Íslandi, hvort sem um væri að ræða olíuhreinsunarstöð eða aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Íslendingar þyrftu að finna sér nýja vini.
Greinarhöfundur hefur líka rætt við annan sendiherra, langreyndan diplómat, sem hlýddi á Ólaf Ragnar í þessum hádegisverði. Hann sagði: „This was a once in a lifetime experience“ – eða „Svonalagað upplifir maður aðeins einu sinni á ævinni“. Við málsverðinn var Ólafur Ragnar harðorður í garð Dana, Svía og Breta. Margir Íslendingar hugsa Bretum þegjandi þörfina fyrir aðgerðir þeirra gagnvart okkur, en hitt er annað mál hvort forseti Íslands á að ráðast að sendiherra þeirra þar sem báðir eru gestir í matarboði á heimili danska sendiherrans á Íslandi. Ég held ekki. Í Kastljósi sagði forsetinn líka, að þarna hefðu átt sér stað tveggja tíma umræður. Það er rangt. Að lokinni ræðu forsetans komu þrjár stuttar athugasemdir mjög almenns eðlis frá jafnmörgum sendiherrum. Tveir aðrir skutu inn örfáum orðum. Það urðu engar umræður. Viðstaddir voru dolfallnir. Það er alvarlegt mál, þegar forseti Íslands kemur í sjónvarp og fer á svig við sannleikann um orð sín á fundi með erlendum sendiherrum. Við sem vorum Ólafi Ragnari samtíða á Alþingi vitum, að hann lét ekki staðreyndir hefta för sína með himinskautum, þegar sá gállinn var á honum. Það er óviðunandi fyrir íslenska þjóð, að hann skuli hafa flutt þau vinnubrögð með sér til Bessastaða."