Þingmaður Frjálslynda flokksins, Grétar Mar Jónsson, spurði Steingrím J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra að því á Alþingi í dag hvort hann ætlaði að skoða hvort gefa ætti út ,,agnarlítinn kvóta" á loðnu eins og hann orðaði það. Sagðist Grétar Mar það ekki hafa teljandi áhrif á loðnustofninn þótt um 50 þúsund tonna kvóti yrði gefinn út til viðbótar á loðnu.
Steingrímur sagðist hins vegar hafa gefið út 15.000 tonna rannsóknarkvóta út í byrjun síðustu viku, með ákveðnum skilyrðum um leit, til þess að auka líkurnar á því að nægilegt magn loðnu finnist Hann kvaðst verða að hryggja Grétar Mar með því að hann tæki ábyrga afstöðu í þessu máli. Á þessu stigi gæti hann engin loforð um að meiri kvóti verði gefinn út.