Deilt fyrir dómi um fjárhundinn Rex

Hundur af tegundinni border collie.
Hundur af tegundinni border collie.

Hérðasdómur Austurlands hefur hafnað kröfu manns um að smalahundur verði tekinn úr vörslum annars manns með beinni aðfarargerð. Telur dómarinn, að kröfuhafanum hafi ekki tekist að sýna fram á að hann eigi hundinn. Málið tengist rannsókn á meintum sauðaþjófnaði, sem fór fram árið 2007 en leiddi ekki til ákæru. 

Sá sem lagði kröfuna fram sagðist hafa keypt smalahundinn Rex árið 2002 á 35 þúsund krónur. Um sé að ræða hund af border collie kyni, svartan og hvítan, sem hafi verið þjálfaður sem smalahundur.

Maðurinn sagðist hafa lánað bónda nokkrum hundinn í haust en þaðan hefði sá, sem nú er með hundinn, tekið hann úr lokuðu húsi. 

Óhætt er að segja að söguþráðurinn, eins og hann er rakinn í dómnum, er nokkuð flókin en upphaf málsins er að árið 2006 ætlaði hundeigandinn að skipta á hundinum og tík. Tíkin drapst hins vegar áður en af skiptunum varð og sagðist hundeigandinn þá hafa talið að ekkert yrði af viðskiptunum. Sá sem fékk Rex taldi hins vegar að hann hefði fengið hundinn að gjöf og fékk raunar hundinn afhentan.

Upphaflegi hundeigandinn lagði í ársbyrjun 2007 ásamt fleirum fram kæru fyrir sauðaþjófnað á hendur bóndanum, sem fékk hundinn. Í desember sama ár var gerð húsleit í fjárhúsi bóndans. Sagði bóndinn, að fyrrum hundeigandinn hefði verið viðstaddur húsleitina og meðan á henni stóð hafi hann sætt lagi, fangað hundinn og haldið með hann heim á leið.

Tengdasonur bóndans sagðist hafa verið staddur hjá ömmu sinni í nú í september og hitt þá fyrir hundinn Rex, en þar hafði honum verið komið fyrir. Sagðist tengdasonurinn hafa  ákveðið að taka hundinn og koma honum til eiganda síns.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert