Erlendar skuldir þjóðinni ofviða

Máli fundarmanna var gerður góður rómur.
Máli fundarmanna var gerður góður rómur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru íslensku þjóðinni ofviða og útlitið er svart. Þetta kom fram í máli Haraldar L. Haraldssonar hagfræðings á opnum borgarafundi í Háskólabíói í kvöld. Setið var í um tveimur þriðju hlutum salarins og mættu foringjar stjórnarandstöðunnar ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar, utan Össur Skarphéðinsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu Jóhannesdóttur sem sátu fund fulltrúaráðs Samfylkingarinnar.

Kvaðst Haraldur jafnframt efast um að ábyrgðin væri íslensks almennings  og að stjórnvöld þyrftu að spyrja sig hvort að með afskiptum sínum nú væru þau ekki að kalla yfir sig ábyrgð sem að ella hefði ekki verið til staðar.

„Erlendar skuldir gömlu bankanna eru íslensku hagkerfi ofviða, enda í engu samræmi við verga landsframleiðslu okkar,“ sagði Haraldur. Vart sé mögulegt að ná afgangi á fjárlögum til að standa undir greiðslu vaxta, hvað þá afborgunum af lánum vegna gömlu bankanna. „Ef það verður gert þá mun það leiða til mikils niðurskurðar í velferðarþjónustu og jafnvel stöðnunar í íslensku efnahagslífi. Við þurfum þessa peninga ef að þeir eru aflögufærir til þess að fara að byggja hér upp til framtíðar.“

Annað vandamál sé að  greiðsla vaxta og afborgana fari ekki fram með íslenskum krónum.

„Ég legg því til að ríkisstjórnin endurskoði aðkomu sína að þessu máli og að þeir sem að beri ábyrgðina verði dregnir til ábyrgðar,“ sagði hann og uppskar mikið lófatak fyrir. Jafnframt verði óskað eftir formlegum viðræðum við þær þjóðir sem að bankarnir störfuðu í og þar sem að skuldir þeirra liggja.

Ennfremur þurfi að leggja  allar tölulegar upplýsingar á borðið. „Og ég fullyrði það að ef að menn fara vel nestaðir í slíkar viðræður þá koma þeir vel nestaðir til baka.“ Í slíkum viðræðum væri sýnt fram á að þetta væri íslensku hagkerfi ofviða. „Síðan er mjög mikilvægt að þetta verði gert með viðræðum og samningum, en ekki með yfirlýsingum um að skuldir okkar verði ekki greiddar án nokkurs rökstuðnings,“ sagði Haraldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert