Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra nýtur mests trausts landsmanna, samkvæmt könnun Markaðs- og miðlarannsókna. 58,5% aðspurðra segjast bera mikið traust til Jóhönnu. Næstur kemur Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra en 48,5% segjast bera mikið traust til hans. Innan við þriðjungur svarenda segist bera mikið traust til forseta Íslands.
Markaðs- og miðlarannsóknir spurðu dagana 11. og 12. febrúar, hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila. Tilgreindir voru sextán aðilar, tíu ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, formenn stjórnmálaflokka, forseti Íslands og formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands.
971 einstaklingur á aldrinum 18 til 67 ára var valinn handahófskennt úr þjóðskrá og tóku 96,9% afstöðu til spurningarinnar.
Flestir, eða 58,5%, segjast bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þar á eftir kemur Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, en 48,5% segjast bera mikið traust til hans. Næst Gylfa koma þær Katrín
Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, en þær njóta mikils trausts hjá um og yfir 41% svarenda. Aðrir sem spurt var um njóta mikils trausts hjá minna en 40% svarenda.
Þannig segjast 38,0% bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar, fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanns VG en 34,0% segjast bera til hans lítið traust.
27,8% bera mikið traust til Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins en 50,4% segjast bera lítið traust til hans.
25,6% segjast bera mikið traust til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar en 43,4% lítið traust.
21,4% segjast bera mikið traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins en 27,7% sögðust bera til hans lítið traust.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins nýtur minnst trausts og lendir neðstur á lista yfir þá sextán stjórnmálamenn sem spurt var um. 8,6% segjast bera mikið traust til Guðjóns Arnars en 51,2% segjast bera lítið traust til hans.
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er sæti ofar en Guðjón Arnar. 10,5% segjast bera mikið traust til Davíðs en 75,9% segjast bera til hans lítið traust.
Athygli vekur að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nýtur mikils traust meðal 32,5% svarenda en 37,8% segjast bera lítið traust til forsetans. Þetta er töluverð breyting frá í desember síðastliðnum þegar
43,7% kváðust bera mikið traust til forsetans og 28,7% sögðust bera lítið traust til hans.
Ef litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka, má sjá að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon njóta bæði nokkuð afgerandi trausts meðal stuðningsmanna beggja stjórnarflokkanna. Leiðtogar fráfarandi ríkisstjórnar, þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, virðast aftur móti njóta lítils stuðnings utan sinna flokka. Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir eru þeir ráðherrar sem njóta mests trausts meðal þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn.