Formenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands sitja nú á fundi og ræða hugmynd miðstjórnar og forseta ASÍ um að fresta endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að koma til 1. mars nk. Formannafundur hefur staðið síðan um hádegi á Grand hóteli.
Mikill hiti er í fundarmönnum en fjölmörg félög innan Starfsgreinasambands Íslands höfðu hafnað hugmynd um frestun launahækkana. Tíðindamaður mbl.is á fundinum sagði fyrir stundu að eitthvað lending næðist von bráðar í málinu en vildi ekki upplýsa í hverju sú lending fælist.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags sagði í samtali við mbl.is í morgun að hann sæi ekki hvernig verkalýðsforingjar gætu tekið um það ákvörðun að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna. Launafólkið í landinu hefði í fyrra greitt atkvæði um samningana út frá gefnum forsendum og það væri þá eðlilegt að ákvörðun sem þessi yrði tekin af launafólkinu sjálfu, það færi fram allsherjaratkvæðagreiðsla.
Samkvæmt gildandi samningum eiga laun að hækka um 3,5% frá og með 1. mars hjá þeim sem ekki hafa notið launaskriðs eða sérstakra hækkana síðustu 12 mánuði. Lægstu laun eiga að hækka sérstaklega, taxtar verkafólks um 13.500 krónur og taxtar iðnaðarmanna um 17.500 krónur.