Krefur forsætisráðuneytið um upplýsingar

Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því við forsætisráðuneytið að það veiti upplýsingar um samskipti sín við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna frumvarps til laga um Seðlabanka Íslands  sem nú er til meðferðar í viðskiptanefnd Alþingis.

„Treglega hefur gengið á vettvangi viðskiptanefndar að fá fram allar upplýsingar um þessi samskipti og að einhverju leyti virðast fullyrðingar í málinu stangast á. Tel ég því óhjákvæmilegt að snúa mér beint til ráðuneytisins og óska eftir þessum upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996," að því  er segir í bréfi sem Birgir sendi ráðuneytinu á föstudag.

„1.  Yfirlit yfir öll samskipti forsætisráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem tengjast Seðlabankafrumvarpinu frá og með 4. febrúar til dagsins í dag. Átt er við öll símtöl, fundi og skrifleg samskipti sem varða þetta mál.

2.  Afrit af öllum skráningum hjá forsætisráðuneytinu sem varða samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á þessu tímabili og tengjast þessu máli. Þar er átt við dagbókarfærslur, skráningu í málaskrá og fundargerðir, eftir því sem við á.

3. Afrit af öllum bréfum, tölvubréfum, skeytum eða öðrum skriflegum gögnum, formlegum eða óformlegum, sem gengið hafa á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og forsætisráðuneytisins frá og með 4. febrúar til dagsins í dag og varða Seðlabankafrumvarpið.

Það er mat mitt að skylda forsætisráðuneytisins til að afhenda þess gögn sé ótvíræð og vísa ég í því sambandi til 3. gr. laga nr. 50/1996. Tel ég að undanþáguákvæði 4. – 6. gr. laganna eigi ekki við og vísa ég þar sérstaklega til 2. tl. 6. gr. Þar er að finna undanþágu frá upplýsingaskyldu stjórnvalda vegna samskipta við önnur ríki eða alþjóðastofnanir en jafnframt kemur fram í greininni að einungis sé heimilt að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist.

Því verður ekki með neinu móti haldið fram, að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að leynd sé haldið yfir „tæknilegum athugasemdum“ við lagafrumvarp sem komið er til meðferðar á Alþingi. Þvert á móti er rík ástæða til að ætla, að almannahagsmunir krefjist þess að slíkar upplýsingar séu opinberar. Einnig er minnt á að í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til upplýsingalaga er skýrt tekið fram að stjórnvald geti ekki heitið þeim trúnaði sem gefur upplýsingar. Slíkt verði ekki gert nema að ótvírætt sé að upplýsingarnar falli undir eitthvert af framangreindum undanþáguákvæðum.

Í ljósi þess að Seðlabankafrumvarpið er nú til meðferðar hjá viðskiptanefnd Alþingis og mikil áhersla er lögð á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að málinu sé hraðað vænti ég þess að ekki verði um að ræða neinar tafir á svörum og framlagningu gagna af hálfu ráðuneytisins," segir í bréfinu frá Birgi Ármannssyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka