Segir Jóhanna ósatt um trúnaðinn?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafnar því að hafa sagt ósatt um trúnaðarskyldu stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, vegna umsagna hans um frumvarp til nýrra laga um Seðlabankann. Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hélt þessu fram í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag. Sagðist hann hafa sent sjóðnum fyrirspurn og fengið það svar til baka að ,í samræmi við fastar vinnureglur gangi athugasemdir sjóðsins til stjórnvalda og síðan sé það stjórnvalda að ákveða hvort þeim verður dreift til annarra. Fyrir helgi hafði Jóhanna sagt á þingi að sjóðurinn hefði sjálfur beðið um trúnað vegna upphaflegra athugasemda sinna um frumvarpið.

Í svari sínu við fyrirspurn Geirs hélt Jóhanna því hins vegar til streitu, hvað sem upplýsingum Geirs leið, að sjóðurinn hafi óskað trúnaðar vegna hinna upphaflegu athugasemda sjóðsins. Geir sagði hins vegar að birta þyrfti hinar upphaflegu athugasemdir sem fyrst. Jóhanna sagði að þingmaður hafi þegar óskað eftir öllum gögnum í málinu og að hann muni fá þau. Allt sé haft opinbert í ráðuneyti hennar sem hægt sé að hafa opinbert.

Geir kom einnig að gagnrýni á stjórnvöld. og spurði hvort ríkisstjórnin hefði ekki leitað fulltingis hjá aðal- og varafulltrúa Íslands í sjóðsráði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Jóhanna svaraði því hins vegar ekki, en Geir bætti því þá við er hann tók aftur til máls að þessir fulltrúar væru Davíð Oddsson seðlabankastjóri og Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Líklega væri það þess vegna sem ekki væri leitað til þessara fulltrúa um ráðgjöf og aðstoð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka