Umboðsmaður Alþingis telur að tiltekin ummæli sem Karl Steinar Guðnason, þáverandi forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins (TR) viðhafði um mál svæfingalæknis í fréttum Ríkissjónvarpsins 24. október 2007 hafi ekki samræmst þeirri meginreglu að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð með dómi.
Kvartað var til Umboðsmanns Alþingis, fyrir hönd svæfingarlæknisins, yfir „athöfnum og framgöngu“ TR gagnvart lækninum. Hann sinnti störfum á grundvelli samninga sérfræðilækna við TR þangað til stofnunin sagði upp samningum við hann vegna meints misferlis. Jafnframt tilkynnti TR um málið til lögreglu.
Athugasemdir læknisins beindust í fyrsta lagi að þætti TR í fjölmiðlaumfjöllun um meint brot hans. Í öðru lagi að því að hann hefði ekki fengið tækifæri til að tjá sig um ásakanir sem fram hefðu komið í tilkynningu TR til lögreglu um meint misferli hans áður en hún var sent.
Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til TR að stofnunin hagi framvegis upplýsingagjöf og samskiptum við fjölmiðla í samræmi við þau sjónarmið sem lýst er í áliti hans frá 9. febrúar síðastliðnum.
Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að hann „hafi ekki forsendur til þess að skera úr um það hvort almennt megi telja að upplýsingagjöf Tryggingastofnunar ríkisins til fjölmiðla í mál A [svæfingarlæknisins] hafi verið í andstöðu við þau lagasjónarmið um upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings, þ. á m. fjölmiðla, sem rakin eru í álitinu.
Þá er það niðurstaða mín að ég hafi ekki forsendur eins og atvikum er háttað til að leggja til grundvallar að tryggingastofnun hafi að lögum verið óheimilt að láta sérstakt yfirlitsblað af hendi til fjölmiðla. Þá er það niðurstaða mín að ekki sé af minni hálfu tilefni til að gera athugasemdir við þann þátt málsins er lýtur að því að A hafi ekki verið veitt tækifæri á að koma að sjónarmiðum sínum vegna meintra ávirðinga hans áður en Tryggingastofnun ríkisins ákvað að vísa máli hans til lögreglu.“