Karpað var um það í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hver ætti heiðurinn af nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um lækkun lyfjakostnaðar. Í fréttum hefur komið fram að Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, ætli sér að ná fram milljarðslækkun á lyfjakostnaði á árinu, m.a. með því að hvetja til notkunar ódýrari samheitalyfja.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Ásta Möller sem var fyrirspyrjandi, og Guðlaugur Þór Þórðarson, forveri Ögmundar í ráðuneytinu, sögðu hann skreyta sig með fjöðrum annarra, enda hafi reglugerðin verið í undirbúningi um langa hríð í ráðuneytinu. Ögmundur hafnaði þessu hins vegar og sagði að meira félagslegt réttlæti væri innifalið í sinni útgáfu, auk þess sem reglugerð Guðlaugs Þórs, hafi aðeins gert ráð fyrir 100 milljón króna hagræðingu. Sín reglugerð muni hins vegar spara um 650 milljónir króna í heilbrigðiskerfinu vegna lyfjakostnaðar.
Ögmundur sagði það liggja fyrir að Guðlaugur Þór hefði undirritað sína reglugerð á síðasta degi sínum í embætti, en látið dagsetninguna vera aðra og taldi hann það til marks um að ráðherrar í starfsstjórninni hefðu „farið sínu fram“eftir að stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var úr sögunni.