Fleiri umsóknir um hreindýraveiðileyfi bárust nú en í fyrra. Ríflega 3.250 umsóknir um 1.333 hreindýraveiðileyfi höfðu borist þegar umsóknarfresti lauk um miðnætti í nótt. Fleiri umsóknir geta verið í pósti og borist næstu daga. Dregið verður úr umsóknunum sunnudaginn 22. febrúar.
Margar umsóknir bárust í tölvupósti um helgina, að sögn Jóhanns G. Gunnarssonar, starfsmanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum. Endanleg tala gildra umsókna lá ekki fyrir í morgun því búast mátti við að einhverjar umsóknir hafi verið sendar í pósti. Einnig var eftir að fara yfir hvort allir umsækjendur væru með B-skotvopnaleyfi, en þess er krafist til hreindýraveiða.
Ákveðið hefur verið að draga úr gildum umsóknum næstkomandi sunnudag, 22. febrúar. Undanfarin ár hefur verið hægt að fylgjast með útdrættinum í fjarfundabúnaði. Jóhann hvatti áhugasama til að fylgjast með tilkynningum um útdráttinn á heimasíðu Umhverfisstofnunar næstu daga.
Hreindýraveiðisíða Umhverfisstofnunar