25 gaskútar í íbúð

Húsið við Hrafnabjörg sem sprakk í morgun.
Húsið við Hrafnabjörg sem sprakk í morgun. mbl.is/Skapti

Slökkviliðið á Akureyri segir að 25 gaskútar hafi fundist í húsi á Akureyri þar sem sprenging varð í morgun. Flestir voru kútarnir af þeirri tegund sem notaðir eru við venjuleg gasgrill en einn iðnaðarkútur, sem er 1,6 metrar á lengd, fannst í húsinu.

Karlmaður á þrítugsaldri, sem var í húsinu, hlaut alvarleg brunasár og verður fluttur á sjúkrahús í Reykjavík með flugi. Þá var hundur inni í húsinu þegar sprengingin varð. Hann fannst nokkru síðar við dvalarheimilið Hlíð, sem er í talsverðri fjarlægð. Var hundurinn þá sviðinn og meiddur og þurfti að aflífa hann.

Að sögn Þorbjörns Haraldssonar, slökkviliðsstjóra, var húsið mettað af gasi. Augljóslega hafi orðið gassprenging í húsinu því þakið lyftist að hluta, útveggur færðist til og gluggarúður sprungu.

Þorbjörn sagði, að námskeið hefði staðið yfir á slökkvistöðinni þegar tilkynning barst um eld í húsinu. Því fóru margir slökkviliðsmenn á vettvang. Þorbjörn sagði að í ljós hafi komið, að þeir voru í mikilli hættu því hálftómir gaskútarnir hefðu getað sprungið. Sagði Þorbjörn, að í raun hefðu 25 fallbyssukúlur verið inni í húsinu. 

Maðurinn, sem í húsinu var, mun einnig hafa slasast alvarlega í júlí árið 2007 þegar eldur kviknaði út frá gasi í bíl, sem maðurinn var í utan við hús í Fljótsdal. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert