914 fengu íslenskt ríkisfang

Árið 2008 var Ísland algengasta fæðingarlandið, en 140 einstaklingar af …
Árið 2008 var Ísland algengasta fæðingarlandið, en 140 einstaklingar af þeim 914 sem fengu íslenskt ríkisfang voru fæddir hér á landi. mbl.is/Kristinn

Aldrei hafa eins margir landsmenn fengið íslenskt ríkisfang samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár og árið 2008, eða 914. Frá árinu 1999 hefur verið stöðug fjölgun á veitingu íslensks ríkisfangs að undanskildu árinu 2007 en þá var fækkun um 197 frá fyrra ári. Fleiri konur en karlar fengu íslenskt ríkisfang árið 2008, eða 525 konur á móti 389 körlum.

Flestir einstaklingar sem hlutu íslenskt ríkisfang árið 2008 höfðu áður pólskt ríkisfang (164), næst fjölmennastir eru þeir sem höfðu filippseyskt ríkisfang (126) , þar næst eru þeir sem höfðu serbneskt ríkisfang (106)  og loks þeir sem höfðu haft taílenskt ríkisfang (62). Þetta eru sömu hópar og hafa verið fjölmennastir hin síðustu ár, að Serbum undanskildum, en fram undir júní 2006 töldust þeir til Serbíu og Svartfjallalands, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

Fæðingarland þeirra einstaklinga sem fá íslenskt ríkisfang gefur svolítið aðra mynd. Árið 2008 var Ísland algengasta fæðingarlandið, en 140 einstaklingar af þeim 914 sem fengu íslenskt ríkisfang voru fæddir hér á landi. Í Póllandi fæddust 134 og 124 í einhverjum af ríkjum fyrrum Júgóslavíu.

Þetta er í fyrsta sinn frá 2003 sem Ísland er algengasta fæðingalandið, en frá 2004 hafa þeir sem fæddir eru í Póllandi vermt efsta sætið. Frá 1991 til 2003 var Ísland algengasta fæðingarlandið nema árið 1996, en þá var stærsti hópurinn fæddur í Víetnam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert