Læknar finna eins og aðrir fyrir því að fólk hefur minna fé á milli handanna. Komum í heilsugæsluna hefur fækkað í kjölfar bankahrunsins og sjúklingar afpanta rannsóknir og aðgerðir.
Sjúklingar hafa afpantað bókaða tíma í röntgenmyndatökur, að því er Birna Jónsdóttir, röntgenlæknir hjá Röntgen Domus, segir. Komum einstaklinga hafi fækkað á milli ára.
Stefán E. Matthíasson, sem á sæti í nefnd sjálfstætt starfandi lækna sem sér um samninga við Sjúkratryggingar, segir ljóst að fólk sé að draga það að fara í aðgerðir sem má fresta. „Maður heyrir út undan sér að fólk hefur ekki peninga á milli handanna. Sumir eru atvinnulausir og aðrir eru hræddir við að taka sér frí frá vinnu. Þeim finnst ástandið svo ótryggt.“
Lífið heldur þó áfram hjá þeim sem kannski hafa ekki orðið varir við mikla breytingu, að því er Ottó Guðjónsson lýtalæknir greinir frá. Ottó segir þó greinilegt að á móti blási. „Fólk hagar seglum eftir vindi. En samt er ótrúlega mikið að gera í þessu árferði,“ segir Ottó.
Þórður Ólafsson, yfirlæknir á Heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti, segir það tilfinningu sína að eftir hrunið í haust hafi aðsóknin minnkað. Hún sé þó að færast aftur í sama horf. Nú séu áberandi tilfelli sem tengjast kreppunni.
Bæklunarlæknar hafa einnig orðið varir við að sjúklingar hafi ekki efni á að fara í aðgerð, að því er Sveinbjörn Brandsson, bæklunarlæknir í Orkuhúsinu, greinir frá.