Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir glapræði að mynda stjórn eftir kosningar, sem ekki taki á Evrópumálum og gjaldmiðilsmálum. Kosningarnar eigi að snúast um það „framtíðarland“ sem Evrópusambandið og aðild að myntsamstarfi Evrópu séu. Svo mátti skilja Björgvin að hann vildi ekki styðja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna eftir kosningar, nema sú stjórn væri Evrópusinnuð.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði áður sagt að tal Björgvins um ESB og evruaðild sem mikilvægasta hagsmunamál Íslendinga væri hluti af sjónhverfingum Samfylkingarinnar, þar sem þingmenn hennar viti ekki hvað þeir eigi að segja um efnahagsmál. Samfylkingin haf einmitt gengið í samstarf með Vinstri-grænum, og í því samstarfi séu engar hugmyndir uppi um að gera Evrópumálin upp. Þar að auki séu uppi hugmyndir um að halda því samstarfi áfram að kosningum loknum.
Sigurður Kári Kristjánsson hafði þar að auki varpað þeirri spurningu fram hvort ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri-grænna væri sjálfhætt, ef hinn síðarnefndi flokkur endurskoðaði ekki afstöðu sína til Evrópusambandsins. Þar vísaði hann í ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um fyrra ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar við Sjálfstæðisflokkinn.
Þessi orðaskipti áttu sér stað í umræðum um störf þingsins og efnahagsmál.