Borgarstjórn samþykkti í dag tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um að setja á laggirnar vinnuhóp sem ætlað er að meta tækifæri í ferðaþjónustu í Reykjavík.
Verður hópnum falið að meta hvernig breyttar aðstæður í efnahagsmálum setji mark sitt á ferðaþjónustuna og hvernig efla megi kynningu og markaðssetningu á Reykjavík sem áfangastað ferðamanna. Þá skuli einnig skoðað með hvaða hætti Reykjavíkurborg getur hvatt til nýsköpunar og eflt vöruþróun í ferðaþjónustu í Reykjavík.
Í tilkynningu frá menningar- og ferðamálaráði segir að hátt í 500.000 erlendir ferðamenn hafi komið hingað á síðasta ári sem sé „veruleg aukning frá fyrri árum“.
„Nýjar tölur gefa til kynna að bæði gjaldeyris- og atvinnuskapandi sóknarfæri séu til staðar í ferðaþjónustu á árinu. Reykjavíkurborg hefur hingað til lagt sitt af mörkum í þessu efni með skipulagningu og stuðningi við margs konar hátíðir og viðburði, með opnun nýrra safna og sýninga og með markaðssetningu erlendis á borginni sem áfangastað,“ segir í tilkynningunni.
Áslaug Friðriksdóttir, formaður menningar- og ferðamálaráðs, kynnti tillöguna, með þeim orðum að erlendir ferðamenn væru afar dýrmætir viðskiptavinir fyrir verslun og þjónustu í Reykjavík.
„Mikilvægt er að við breyttar aðstæður greini Reykjavíkurborg vel og nýti öll þau tækifæri sem til staðar geta verið. Viðskipti ferðamanna eru m.a. mikilvægur þáttur í vexti íslenskrar hönnunar, auk þess sem þeir eru verðmætir gestir ýmissa menningarstofnana í Reykjavík,“ sagði Áslaug.