Kröfur fyrnast á tveimur árum

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundinum í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Ómar

Frumvörp til breytinga á lögum um nauðungarsölu, gjaldþrot og aðfararaðgerðir verða lögð fyrir Alþingi í dag eða morgun, að því er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra greindi frá á blaðamannafundi í hádeginu í dag. Meðal boðaðra breytinga er að kröfur á gjaldþrota einstaklinga fyrnast á tveimur árum í stað 10, nauðungarsölum á húseignum verður frestað um sex mánuði þannig að þær geta í fyrsta lagi farið fram í ágúst og að þeir sem missa hús sín vegna nauðungarsölu geta búið þar í eitt ár frá því salan fer fram.

Á blaðamannafundinum með Jóhönnu og Steingrími J. Sigfússyni var jafnframt sagt frá nýju frumvarpi um fyrirframgreiðslu á séreignalífeyrissparnaði. Samkvæmt því geta sparifjáreigendur tekið út að hámarki eina milljón fyrirfram sem greiðist út á níu mánaða tímabili hið mesta. Steingrímur sagði að þetta fé yrði fólki til frjálsrar ráðstöfunar en ekki bundið við að greiða niður skuldir eins og eldra frumvarp kvað á um.  Fyrirframgreiðslur úr séreignasjóðum munu ekki skerða réttindi til atvinnuleysisbóta eða annarra bóta úr almannatryggingakerfinu.

Jóhanna sagði að stefnt væri að því að öll mál sem ríkisstjórnin vildi að yrðu samþykkt fyrir þingrof yrðu komin fram á Alþingi innan 10-14 daga. Meðal þeirra mála sem verið væri að vinna að væri hvernig bregðast ætti við vanda „myntkörfufólksins og verðtryggingafólksins“ sem verst stæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka