Laun hækkuðu um 30% á almennum vinnumarkaði á árunum 2005-2008, að því er fram kemur í Launagreiningu ParX Viðskiptaráðgjafar IBM. Laun hækkuðu á tímabilinu mest hjá fjármála- og tryggingafélögum, eða um 39%. Þá hækkuðu laun í framleiðslu og iðnaði um 29% og 20% í verslun og þjónustu.
Laun hækkuðu um tæp 11% frá september 2007 til september 2008. Á því tímabili var hækkunin mest hjá hópum í sölu, afgreiðslu- og þjónustustörfum og í iðnaðar- og tæknistörfum, eða 15%. Hækkunin var minnst í hópi ósérhæfðra starfsmanna, eða 4%. Þetta er svipuð hækkun og árinu á undan en laun hækkuðu þá um 9% frá september 2006 til september 2007.
Til samanburðar má nefna að launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 30% frá 2005-2008. Þegar mælingar Hagstofunnar frá því í október 2008 eru skoðaðar hefur launavísitalan hækkað um að meðaltali 0,13% á síðustu þremur mánuðum ársins á móti 0,37% yfir sama tímabil 2007.
„Þessar tölur gefa til kynna að launaskriði síðustu ára á Íslandi sé lokið. Líklegt er að tölur sem sýna fram á launalækkanir komi fram á næstu vikum,“ segir Jón Emil Sigurgeirsson umsjónarmaður Launagreininga ParX.
Hann segir að launavísitala Hagstofunnar hafi einungis lækkað í fjórum mælingum sem eru gerðar á milli mánaða frá 1989, þar af var lækkun mest í október árið 1991, eða 1,2%.
„Það má því færa rök fyrir því að nú hafi skapast ný viðmið við launaákvarðanir á almennum vinnumarkaði miðað við tölur síðasta ársfjórðungs. Niðurstöður sýna ekki lækkanir á launum enn sem komið er en gera má ráð fyrir að þær komi fram í launagreiðslum fyrirtækja fljótlega á árinu. Fyrirtæki hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir upp á síðkastið sem hafa haft bein áhrif á einstaka starfsmenn, þ.m.t. að segja upp starfsmönnum, að segja upp launalið starfssamninga eða að biðja starfsmenn að fara í hlutastörf og ekki er útséð um að þeim aðgerðum sé lokið,“ segir Jón Emil.
Hann segir að þegar gera eigi breytingar á launum starfsfólks sé mikilvægt að stjórnendur hafi yfirsýn yfir laun á almennum markaði og geti borið laun einstakra starfshópa saman við laun annarra launþega í sambærilegum störfum innan sambærilegra fyrirtækja.
Vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði mun ParX gera nýja launagreiningu á febrúar launum á þessu ári.
Launagreining ParX hefur verið framkvæmd árlega frá 1979 og byggir á upplýsingum úr launakerfum rúmlega 100 fyrirtækja úr ýmsum starfsgreinum. Könnunin er ekki viðhorfskönnun starfsmanna á almennum vinnumarkaði heldur er stuðst við gögn beint úr launakerfum fyrirtækja sem gefa raunhæfa mynd af þróun launa á íslenskum vinnumarkaði.