Bandaríska dagblaðið New York Times fjallaði í dag um Sigurð Helgason, fyrrum forstjóra og stjórnarformann Flugleiða. Segir blaðið, að Sigurður hafi verið einn af brautryðjendum lággjaldaflugferða yfir Atlantshafið á sjötta áratug síðustu aldar. Sigurður lést nýlega á eyjunni Mustique í Karíbahafi, 87 ára að aldri.
Sigurður var varaformaður stjórnar Loftleiða frá árinu 1953 og framkvæmdastjóri félagsins í New York allan sjöunda áratuginn. „Löngu áður en Freddie Laker og People Express hófu lággjaldaflug yfir Atlantshafið lögðu Loftleiðir til atlögu við ríkisreknu risana innan Alþjóðasambands flugfélaga, sem réðu flugfargjöldum, með því að bjóða mun lægri flugfargjöld," segir New York Times.
Blaðið nefnir, að Loftleiðir voru gjarnan kallaðir hippaflugfélagið á sjöunda áratug síðustu aldar en ungt fólk nýtti sér í stórum stíl hve fargjöld félagsins milli Bandaríkjanna og Evrópu voru lág.
„Þéttsetnar flugvélar Loftleiða, sem knúnar voru skrúfuhreyflum en flugvélar keppinautanna þrýstiloftshreyflum, voru 10-12 klukkustundir á leiðinni til Evrópu og yfirleitt á eftir áætlun.
„Við erum sein en við erum ódýr," var slagorð flugfélagsins, sem flutti unga fólkið til Lúxemborgar með DC-8 flugvélum og millilendingu á Íslandi. Þar sem ekkert ríkisflugfélag var í Lúxemborg var það eina ríkið í Evrópu, sem vildi leyfa Loftleiðum að lenda og farþegar héldu áfram ferð sinni þaðan með rútum eða lestum.
Gamlar ódýrar flugvélar, duglegir flugmenn og hámarksnýting flugvélanna gerði Loftleiðum kleift að ná 2% markaðshlutdeild á flugi milli Bandaríkjanna og Evrópu undir lok sjöunda áratugarins og 90% tekna félagsins mynduðust utan Íslands. Þótt aðeins eitt farrými væri í vélunum sparaði flugfélagið ekki í mat og veitti léttvín og koníak með," segir blaðið.