Stór hluti þeirra aðgerða sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra kynnti á sunnudag með nýrri reglugerð sem ætlað er að lækka lyfjakostnað um milljarð var þegar kominn til framkvæmda.
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. „Ögmundur verður að geta heimilda,“ segir Guðlaugur Þór og kveður ráðherrann skreyta sig með stolnum fjöðrum.
„Þetta er nokkuð sem var búið að vera í undirbúningi lengi og var allt komið inn í reglugerð nema sjúklingaskatturinn og lækkun lyfjakostnaðar fyrir atvinnulausa.“
Í reglugerð frá 20. janúar sl., sem hann sjálfur undirritaði, sé þannig mælt fyrir um notkun ódýrari lyfja sé þess kostur. Í þessari sömu reglugerð sé einnig kveðið á um lægra lyfjaverð fyrir börn undir 18 ára aldri, sem og að hámarksafgreiðslureglan á þunglyndis-, veiru- og mígrenilyfjum verði aflögð.
Reglur um minni smásöluálagningu hafi svo tekið gildi 1. janúar og minni heildsöluálagningu 1. febrúar.