Varnarmálastofnun leifar af liðnum tíma

Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Frikki

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að Íslendingar eigi að vinna að því, að hér á landi verði fjölþjóðleg svæðismiðstöð eftirlits á hafinu undir forystu Landhelgisgæslu Íslands. Hann segir að varnarmálastofnun sé tímaskekkja. „Með varnarmálastofnun er verið að leggja rækt við leifar liðins tíma,“ segir Björn. 

Þetta kom  fram í ræðu sem Björn flutti síðdegis í dag á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Björn ræddi um skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, sem fjallar um aukið samstarf Norðurlanda í öryggis- og utanríkismálum.

Tillaga Stoltenbergs um að norrænu ríkin taki í sameiningu að sér loftrýmisgæslu á Íslandi hefur t.d. vakið mikla athygli.

Björn sagði að það sé í senn sjálfstæðismál og öryggismál að standa vörð um Gæsluna og störf hennar, þótt á móti blási í opinberum fjármálum. Hann telji, að forgangsraða eigi í hennar þágu, þegar hugað sé að varnar- og öryggishagsmunum Íslands. 

„Við eigum að vinna að því, að hér verði fjölþjóðleg svæðismiðstöð eftirlits á hafinu undir forystu landhelgisgæslunnar. Fjármunum til öryggismála verði varið til þess frekar en til að reka varnarmálastofnun, enda geta borgaralegar stofnanir tekið við verkefnum hennar. Atlantshafsbandalagið á ekki að ákveða ráðstöfun fjármuna til íslenskra öryggismála, enda sé ekki dregið úr starfsemi Íslendinga í þágu þess,“ sagði Björn.

Hann benti á að Íslendingar séu í fremstu röð á þessu sviði, hafi bæði tæki og mannafla, og að Íslendingar geti sinnt öllum verkefnum, sem séu borgaralegs eðlis. „Stoltenberg sér slík verkefni aðeins vaxa og verða mikilvægari,“ sagði Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert