Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að Íslendingar eigi að vinna að því, að hér á landi verði fjölþjóðleg svæðismiðstöð eftirlits á hafinu undir forystu Landhelgisgæslu Íslands. Hann segir að varnarmálastofnun sé tímaskekkja. „Með varnarmálastofnun er verið að leggja rækt við leifar liðins tíma,“ segir Björn.
Þetta kom fram í ræðu sem Björn flutti síðdegis í dag á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Björn ræddi um skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, sem fjallar um aukið samstarf Norðurlanda í öryggis- og utanríkismálum.
Tillaga Stoltenbergs um að norrænu ríkin taki í sameiningu að sér loftrýmisgæslu á Íslandi hefur t.d. vakið mikla athygli.
Björn sagði að það sé í senn sjálfstæðismál og öryggismál að standa vörð um Gæsluna og störf hennar, þótt á móti blási í opinberum fjármálum. Hann telji, að forgangsraða eigi í hennar þágu, þegar hugað sé að varnar- og öryggishagsmunum Íslands.
„Við eigum að vinna að því, að hér verði fjölþjóðleg svæðismiðstöð eftirlits á hafinu undir forystu landhelgisgæslunnar. Fjármunum til öryggismála verði varið til þess frekar en til að reka varnarmálastofnun, enda geta borgaralegar stofnanir tekið við verkefnum hennar. Atlantshafsbandalagið á ekki að ákveða ráðstöfun fjármuna til íslenskra öryggismála, enda sé ekki dregið úr starfsemi Íslendinga í þágu þess,“ sagði Björn.
Hann benti á að Íslendingar séu í fremstu röð á þessu sviði, hafi bæði tæki og mannafla, og að Íslendingar geti sinnt öllum verkefnum, sem séu borgaralegs eðlis. „Stoltenberg sér slík verkefni aðeins vaxa og verða mikilvægari,“ sagði Björn.