Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, vill ekki tjá sig um málefni Idol-dómara sem í dag tengdist fréttum af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni, sem sakfelldur var fyrir fíkniefnabrot, líkamsárásir og fleiri afbrot.
Í dómnum, sem birtur var fyrr í dag á dómstólavefnum, er m.a. vitnað í símtöl brotamannsins við nafngreinda einstaklinga sem lögregla hleraði og taldi hafa snúist um fíkniefnasölu. Meðal þeirra sem þar voru nafngreindir var Björn Jörundur Friðbjörnsson, tónlistarmaður og dómari í þættinum Idol-stjörnuleit á Stöð 2i. Í símtölum þeirra tveggja er tala þeir um „ás“ og „tveir“ sem geri „tólf kall.“
Dómurinn var um tíma í dag fjarlægður af vef dómsins og birtist á ný síðdegis, en þá höfðu nöfn þeirra, sem hinn dæmdi ræddi við, verið fjarlægð.
Í samtali við mbl.is sagðist Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, ekki geta tjáð sig um málið fyrr en Björn Jörundur hefði tjáð sig opinberlega um málið við fjölmiðla. Var á honum að skilja að von væri á einhvers konar viðbrögðum eða yfirlýsingu frá Birni Jörundi síðar í dag.
Ekki hefur náðst tal af Birni Jörundi.