InDefence hópurinn býður fram aðstoð sína í samningaviðræðum við Breta vegna Icesave deilunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum.
Þar segir að hópurinn fagni umræðum á Alþingi í gær um þá ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum þann 8. október 2008. Þessi afdrifaríka aðför að íslensku samfélagi hafi komið Íslendingum gersamlega í opna skjöldu og breytti erfiðri stöðu í efnahagslegt hrun.
„Það eru réttar áherslur íslenskra stjórnvalda að semja á nýjum forsendum um skuldbindingar Íslendinga vegna Icesave, enda ljóst að með beitingu hryðjuverkalaga gegn íslenskum stjórnvöldum sem og Landsbanka Íslands, þá rýrðu bresk stjórnvöld eignir íslenskra aðila erlendis sem og sköðuðu viðskiptahagsmuni óskyldra íslenskra fyrirtækja. Ljóst er að orðstír allra Íslendinga var dreginn í efa með því að setja okkur á lista með ógnarstjórnum eins og Norður-Kóreu, Al Kaida og Talibönum svo einhverjir séu nefndir.
Síðan um miðjan október 2008 hefur InDefence hópurinn unnið að því að vekja athygli erlendra stjórnvalda, innstæðueigenda og fjölmiðla á notkun breskra stjórnvalda á hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum. InDefence hópurinn hefur líklega tekið á móti um fimmta tug fjölmiðla alls staðar að úr heiminum. Hópurinn hefur saknað upplýstrar umræðu um beitingu hryðjuverkalaganna á Alþingi og hefur undrast aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda þegar kemur að því að verja hagsmuni þjóðarinnar í þessu mikilvæga máli. Þess má geta að svo virðist sem að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn komið mótmælum á framfæri til breskra stjórnvalda, né sent afrit af slíkum mótmælum til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og NATO. Það vekur ennfremur furðu okkar að engar beinar viðræður hafi farið fram á milli forsætisráðherra Íslands og Bretlands síðan að hryðjuverkalögunum var beitt þann 8. október síðastliðinn.
InDefence hópurinn vonast til þess að núverandi ríkisstjórn Íslands muni beita sér af meira afli við að verja hagsmuni þjóðarinnar gagnvart ólögmætum aðgerðum og ósanngjörnum kröfum breskra stjórnvalda. Hópurinn býðst jafnframt til þess að veita íslenskum stjórnvöldum aðstoð og ráðgjöf í þessu máli, ef það getur orðið að gagni,“ segir í tilkynningunni.