Björn Jörundur viðurkennir mistök

Björn Jörundur.
Björn Jörundur. mbl.is/Brynjar Gauti

Björn Jörundur Friðbjörnsson tónlistarmaður viðurkennir að hann hafi gert mistök þegar hann átti viðskipti við dæmdan fíkniefnasala. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 segir Björn Jörundur að málið sé um ársgamalt og að þetta tilheyri fortíðinni.

Málið tengist fréttum af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni, sem sakfelldur var fyrir fíkniefnabrot, líkamsárásir og fleiri afbrot.

Í dómnum, sem birtur var fyrr í dag á dómstólavefnum, er m.a. vitnað í símtöl brotamannsins við nafngreinda einstaklinga sem lögregla hleraði og taldi hafa snúist um fíkniefnasölu. Meðal þeirra sem þar voru nafngreindir var Björn Jörundur Friðbjörnsson, tónlistarmaður og dómari í þættinum Idol-stjörnuleit á Stöð 2. Í símtölum þeirra tveggja er tala þeir um „ás“ og „tveir“ sem geri „tólf kall.“

Björn Jörundur sagði í fréttum Stöðvar 2 að það færi ekki á milli mála um hvað samtalið snerist. Hann neiti engu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert