Hvalveiðilögin frá 1949 verða endurskoðuð í vetur og hefur verið skipuð til þess þriggja manna nefnd. Þá verður Hafrannsóknarstofnuninni falið að gera tillögur um afmörkuð hvalaskoðunarsvæði, þar sem með öllu verður óheimilt að stunda hvalveiðar eða hvalskurð. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigúfssonar sjávarútvegsráðherra á blaðamannafundi klukkan þrjú í dag, þar sem hann tilkynnti að ákvörðun um hvalveiðar á yfirstandandi ári stæði óhögguð, en ekki væri hægt að gera ráð fyrir því að hún standi hvað varðar veiðar næstu fjögur árin.
Steingrímur greindi við þetta tilefni frá niðurstöðu lögfræðiálits frá hæstaréttarlögmanninum Ástráði Haraldssyni um málið. Lögmaðurinn gagnrýnir málsmeðferð fyrrverandi ráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, við setningu reglugerðarinnar sem heimilar hvalveiðar, og telur lagagrundvöll hennar og hvalveiða almennt veikan.
Niðurstaðan er hins vegar sú að íslenska ríkið sé bundið að meginákvörðuninni sem af setningu reglugerðarinnar leiðir, þannig að núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé ekki fært að fella reglugerðina úr gildi eða afturkalla ákvörðunina um hvalveiðar.
Samt geti ráðherra breytt reglugerðinni og gert með því ýmsar efnisbreytingar á þeim reglum sem um veiðarnar gilda. Þetta eigi t.d. við um veiðiheimildir, veiðitíma og veiðisvæði. Ekki síður til að gæta hagsmuna annarra og til að draga sem mest úr ónæði sem hvalveiðar og vinnsla hvals kann að valda öðrum.
Steingrímur segir að stjórnvöld hljóti að fylgjast grannt með framvindu veiðanna og áskilja sér rétt til að grípa inn í ef breytingar verða á forsendum þeirra. Þá verði grundvöllur þeirra endurmetinn og því starfi lokið fyrir undirbúning vertíðar næsta árs. Þannig eigi að rannsaka þjóðhagslega þýðingu hvalveiða. Hafnar séu viðræður við hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að stofnunin taki verkið að sér.
Sjávarútvegsráðuneytið mun einnig afla upplýsinga um að þeir sem hyggjast stunda hvalveiðar og vinna hvalaafurðir hafi fyrirfram öll önnur tilskilin leyfi sem slík starfsemi þarfnast.
Ákvörðunin sem Steingrímur kynnti í dag snertir veiðar á langreyði og hrefnu næstu fimm árin, sem Einar K. Guðfinnsson, forveri hans í ráðuneytinu, heimilaði á síðustu dögum sínum embætti, þegar ljóst var að ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks myndi fljótt ljúka. Ákvörðunin hefur samt sem áður verið undirbúin um nokkurra ára skeið, m.a. með veiðum í rannsóknarskyni.