Evrópustefna VG skýr

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði á Alþingi í dag að stefna flokksins í Evrópumálum væri skýr og afdráttarlaus: „Við teljum að okkur sé betur borgið utan Evrópusambandsins," sagði Jón.

Sagði Jón, að það ánægjulega væri að þessi stefna virðist eiga yfirgnæfandi hljómgrunn meðal þjóðarinnar, það sýndu skoðanakannanir.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að alvöru umræða hefði farið fram innan VG um að þessum málum yrði ráðið meðal þjóðarinnar. Í haust hefði flokkurinn opnað fyrir að þessum málum yrði ráðið meðal þjóðarinnar og að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um aðildarumsókn.

„Það er ákaflega mikilvægt skref af hálfu VG," sagði Mörður. „Vinstrihreyfingin-grænt framboð, íhaldsflokkurinn mikli og þjóðernisbrjálæðingarnir, sem standa í vegi fyrir öllum framförum, eru mörgum skrefum á undan Sjálfstæðisflokknum í þessu efni, sem hefur verið að velta vöngum, klóra sér í kollinum og rymja hver framan í annan í þessum málum meðan Róm brennur," sagði Mörður.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hóf umræðu um málið í upphafi þingfundar í dag. Sagði hún fróðlegt að fá upplýsingar um afstöðu VG til ESB í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar hefði sagt í byrjun ársins um að ríkisstjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokk væri sjálfhætt ef ekki yrði breyting á afstöðu flokksins til Evrópusambandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert