Gróska í viðhaldsframkvæmdum

Framundan er gróska í framkvæmdum við viðhald fasteigna, að mati Sigurðar Helga Guðjónssonar, formanns Húseigendafélagsins. „Viðhaldsiðnaðurinn stækkar þegar nýbyggingaiðnaðurinn dregst saman,“ segir hann.

„Þetta er svona eins og kúrfurnar í stofni rjúpna og fálka. Í þenslunni miklu var erfitt að fá verktaka í viðhaldsverkin, grasið þótti grænna í nýbyggingum og þangað fóru flestir. Núna berjast hins vegar verktakar um viðhaldsverk, sem áður fúlsuðu við þeim,“ segir Sigurður Helgi. Þetta segir hann að geri húseigendum kleift að velja úr verktökum og ná góðum samningum. „Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, en það sem skyggir á er að nýtt lánsfé er af skornum skammti og lánamöguleikar ekki eins góðir og áður.“

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að hvetja til viðhalds fasteigna eru jákvæðar, að mati Sigurðar. Í þeim felst m.a. að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingastað er nú 100% en var áður 60%. „Í öðru lagi eru ráðgerð meiri og rýmri lán frá Íbúðalánasjóði til viðhaldsframkvæmda,“ segir hann og í framhaldi megi búast við að talsvert meira verði að gera á því sviði.

Sigurður Helgi hefur merkt aukinn áhuga hjá fólki á að fara í viðhald á húsum sínum. „Já, já, ég hef fundið það og menn sem hafa beðið í tvö-þrjú ár en ekki fengið verktaka sjá núna möguleika,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert